fbpx
Laugardagur 02.nóvember 2024
Fréttir

Ögmundur segir Kveiks-málið meira en starfsmannamál – „Gróf ærumeiðing um góða og faglega fréttakonu“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 28. apríl 2024 11:00

Ögmundur stígur inn á völlinn í deilunni heitu á Efstaleiti.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ögmundi Jónassyni, fyrrverandi ráðherra, er ekki skemmt yfir Kveiks-málinu svokallaða. Það er að sjónvarpskonunni Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur hafi verið vikið úr þættinum eftir að hún ætlaði að fjalla um lóðabrask Reykjavíkurborgar og olíufélaganna.

„Meiðandi yfirlýsingar um fréttamann Sjónvarpsins, Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur hafa vakið furðu og þá ekki síður hafa viðbrögð forráðamanna fréttastofunnar valdið forundran,“ segir Ögmundur í grein á heimasíðu sinni, ogmundur.is.

„Í fáum orðum sagt var aflýst fyrirhugaðri umfjöllun Maríu Sigrúnar í fréttaskýringaþættinum Kveik og látið fylgja með að hún væri ekki lengur hluti af Kveiksteyminu – með öðrum orðum rekin! – því í störfum þar hafi hana skort fagmannlega burði. Hins vegar væri hún afbragðs þulur og átti greinilega að skilja það svo að í því hlutverki ætti María Sigrún að halda sig,“ segir hann.

Viðkvæmt mál

DV greindi frá því í gær að umfjöllunin, sem María Sigrún fékk ekki að birta í þættinum hafi snúið að meintum gjafagjörningi Reykjavíkurborgar til olíufélaga í júní árið 2021.

Hafi Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóri, skrifað undir samning við Festi og Krónuna, Olíuverslun Íslands, Haga og Skeljung um nýtt hlutverk bensínstöðva á tólf úrvalsstöðum í borginni. Auk lóða undir starfsemi sína fengu félögin gefins byggingarétt sem fela í sér gríðarleg verðmæti.

Sjá einnig:

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik

„Þar til nú hefur ekki komið fram hvert umfjöllunarefni Maríu Sigrúnar fyrir Kveik var, hvað gat verið svo viðkvæmt að það ætti ekki heima í þessum þætti. Nú hefur DV upplýst að hið viðkvæma mál hafi verið sú ákvörðun forráðamanna Reykjavíkurborgar að gefa olíufélögum dýrmætar lóðir til að braska með og svo einnig áform braskaranna um yfirgengilegt byggingarmagn á þessum lóðum sem íbúar hafi harðlega mótmælt,“ segir Ögmundur og reifar að fréttastjórinn, Hreiðar Örn Sigurfinnsson, hafi hafnað að annarleg sjónarmið lægju að baki. Umfjöllunin hefði ekki verið fullbúin í tæka tíð. Sagði Hreiðar málið starfsmannamál sem hann muni ekki tjá sig frekar um.

Ögmundur tekur skýringar Hreiðars mátulega alvarlega.

„Ef umrædd umfjöllun var ekki tilbúin til útsendingar þá bar Kveik einfaldlega að fresta umfjöllun sinni hávaðalaust í stað þess að reka fréttamanninn á dyr með svívirðingum opinberlega. Í umfjöllun sem nú er að koma fram er svo að skilja að vel hefði mátt klára innslagið ef vilji hefði staðið til þess. En það er aukaatriði,“ segir Ögmundur.

Tilraun til þöggunar

Hann segir það fjarri sanni að það sé aðeins um starfsmannamál að ræða eins og Hreiðar segi í yfirlýsingu sinni. Það þurfi að fá úr því skorið hvort um sé að ræða til raun til ritskoðunar og þöggunar.

„Hitt er morgunljóst að um er að ræða grófa ærumeiðingu um góða og faglega fréttakonu; að láta það fylgja með sem klapp á kollinn þegar hún er rekin á dyr, að hún lesi fréttirnar vel og eigi ekki að ætla sér meira en hún hafi burði til,“ segir Ögmundur. „Ef samhengið væri annað væri það að sjálfsögðu hrós að vera sagður góður þulur því starf fréttaþular er krefjandi um margt; hvað varðar persónuleika, áheyrilegan og þægilegan talanda og síðast en ekki síst skilning á máli. Allt þetta hefur María Sigrún vissulega til að bera og er hrósvert. Það breytir því hins vegar ekki að hún hefur auk þess það til að bera að vera góður fréttamaður!“

Segir hann að fréttastofu RÚV beri að biðja Maríu Sigrúnu afsökunar og reyndar einnig okkur hinum sem eigum þessa fréttastofu og höfum þá í vinnu sem ekkert segjast vilja við okkur tala.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Maðurinn sem er grunaður um að hafa banað móður sinni í Breiðholti úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald

Maðurinn sem er grunaður um að hafa banað móður sinni í Breiðholti úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald
Fréttir
Í gær

Efni sem valda krabbameini og ófrjósemi fundust í snyrtivörum – Eilífðarefni í vörum Sephora og Kiko

Efni sem valda krabbameini og ófrjósemi fundust í snyrtivörum – Eilífðarefni í vörum Sephora og Kiko
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hjúkrunarfræðingar kæra launamun: „Það er 2024 og við erum stödd þarna“

Hjúkrunarfræðingar kæra launamun: „Það er 2024 og við erum stödd þarna“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmar furðar sig á viðbrögðunum: „Elín Margrét lét þá ekki slá sig út af laginu“

Sigmar furðar sig á viðbrögðunum: „Elín Margrét lét þá ekki slá sig út af laginu“