„Íslandsvinurinn“ Jeff Gunter leggur mikið upp á ímynd sína í kosningaherferð í prófkjöri Repúblíkana í Nevada fylki. Í auglýsingum má sjá hann klæðast kúrekafötum sem fólki sem til hans þekkir þykir algjör brandari.
Gunter, sem er húðlæknir að mennt, var skipaður sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi í forsetatíð Donald Trump. Líklega hefur sendiherratíð aldrei verið skrautlegri en Gunters, sem hleypti öllu í bál og brand, bæði gagnvart eigin starfsfólki og Íslendingum. Eftir hans tíð var gerð úttekt á störfum hans og kolsvartri skýrslu skilað.
Gunter er nú að etja kappi við Sam Brown um að verða frambjóðandi Repúblíkanaflokksins fyrir komandi kosningar um öldunardeildarþingsæti í Nevada.
Í einni auglýsingunni má sjá Gunter stíga upp í Ford F-150 pallbíl í kúrekastígvélum og kúrekaskyrtu starandi yfir hrjúft landslag hins villta vesturs. Á beltissylgjunni hans stendur „Nevada.“
Netmiðillinn The Daily Beast fjallar um þessa nýju og fölsku ásýnd Jeff Gunter í grein sem birtist í dag. Kemur þar fram að í opinberum tölum sjáist að Gunter hafi nýtt tæplega 800 dollara, eða tæplega 113 þúsund krónur, í versluninni Boot Barn. En það er fataverslun sem selur kúrekaklæðnað, svo sem stígvél, hatta, skyrtur og fleira.
Meðal annars sést að Boot Barn selur skyrtu eins og Gunter klæðist á 29,99 dollara og Nevada beltissylgjur á 45 dollara.
Í svörum við fyrirspurnum The Daily Beast viðurkenna forsvarsmenn framboðsins að fötin hefðu verið keypt í Boot Barn fyrir auglýsingaherferðina.
Gunter er ekki frá Nevada heldur Kaliforníu. Ekki nóg með það þá er hann enn þá skráður sem demókrati í því fylki. Gunter á vissulega fasteign í Nevada en hann heldur heimili í Kaliforníu og starfar þar.
„Jeff Gunter er Kaliforníudemókrati sem notar kosningafé í verslun í Kaliforníu til að klæða sig upp sem Nevada kúreka. Það er ekki hægt að skálda þetta,“ sagði einn heimildarmaður miðilsins innan Repúblíkanaflokksins. „Jeff Gunter er falskúreki.“
Prófkjör Repúblíkana í Nevada er að verða það ljótasta í landinu og óvægin ummæli ganga á milli. Þá reyna bæði Gunter og Brown að smjaðra eins og þeir geta fyrir Donald Trump til þess að hljóta stuðning hans. Trump hefur ekki lýst yfir stuðningi við neinn í baráttunni.