fbpx
Þriðjudagur 14.janúar 2025
Fréttir

Snorri furðar sig á Byggðastofnun – Sagður gera lítið úr þeim sem ekki tala íslensku

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 23. apríl 2024 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Snorri Másson fjölmiðlamaður og umsjónarmaður vefsins ritstjori.is lýsir í pistli á Vísi yfir furðu sinni á því að fyrsta enskumælandi pólitíska ráð landsins, í Mýrdalshreppi, hafi hlotið samfélagsviðurkenningu Byggðastofnunar og segir það varla vera góða byggðastefnu að ýta undir það að samfélagið verði rekið án þess að íslenska komi við sögu. Sabine Leskopf borgarfulltrúi Samfylkingarinnar segir pistil Snorra gera lítið úr fólki sem talar ekki íslensku.

Snorri rifjar upp að meira en 60 prósent íbúa í Mýrdalshreppi hafi erlent ríkisfang og fari stöðugt fjölgandi. Fyrir tveimur árum hafi sveitarstjórnin ákveðið að koma á laggirnar enskumælandi pólitísku ráði til að vera ráðgefandi um ýmis málefni sveitarfélagsins:

„Þar má segja að ákveðin stífla hafi brostið gagnvart íslenskri tungu, sem hefur hingað til verið eina opinbera málið í landinu – nú fer stjórnsýsla í landinu fram á íslensku og ensku; því verður ekki lýst öðruvísi.“

Snorri segir þessa þróun geta undið hratt upp á sig og loks geti komið að því að það muni þykja sanngjarnt að halda til dæmis þingfundi á ensku.

Byggðastofnun hafi síðan í vikunni veitt Mýrdalshreppi samfélagsviðurkenningu Byggðastofnunar fyrir þetta enskumælandi ráð:

„Í umfjöllun um verðlaunin er Tomasz Chochołowicz, formaður enskumælandi ráðsins í Mýrdalshreppi, tekinn tali: „Ég var búinn að búa í Vík í átta ár en fannst ég aldrei tilheyra að fullu eða geta haft einhver áhrif á samfélagið. Það er frábært að þarna sé kominn vettvangur fyrir íbúa af erlendum uppruna til að hafa áhrif innan stjórnsýslunnar og geta komið sínum hugmyndum á framfæri.““

Eina leiðin

Snorri segir þessi orð formannsins birta þá sýn að eina leiðin fyrir íbúa af erlendum uppruna til að hafa áhrif í íslensku samfélagi sé að stjórnsýslan færist yfir á ensku:

„Eins og það sé varla hægt að ætlast til þess úr þessu að umræddir íbúar læri íslensku og hafi áhrif eftir þeirri leið.“

Orðræða Byggðastofnunar sé á þá leið að stjórnsýsla á ensku sé mikilvægt jafnréttismál:

„Ef þessi sjónarmið eru tekin alla leið að sínum lógíska endapunkti getur hin eina sanna inngilding ekki orðið fyrr en við tökum upp ensku sem opinbert mál á öllum stigum, enda verður alltaf einhver sem ekki skilur íslensku.“

Snorri segir það kostulegt að Byggðastofnun veiti sveitarfélögum hvatningarverðlaun fyrir að draga úr vægi íslenskrar tungu í opinberri stjórnsýslu. Öllu alvarlega sé að stofnunin telji um góða byggðastefnu að ræða í Vík í Mýrdal. Sveitarfélagið reiði sig á eina atvinnugrein, íbúar með erlent ríkisfang séu í meirihluta og það sé óvinnandi vegur að reka samfélagið í Vík á íslensku.

Pistil Snorra í heild sinni er hægt að nálgast hér.

„Jæja nú byrjar þetta einmitt aftur“

Eins og áður segir er Sabine Leskopf borgarfulltrúi Samfylkingarinnar ósátt við pistil Snorra. Hún skrifar í færslu á Facebook-síðu sinni að með pistlinum sé gert lítið úr fólki sem talar ekki íslensku:

„Jæja nú byrjar þetta einmitt aftur. Að gera lítið úr fólki sem talar ekki íslensku vegna þess einfaldlega að það býr í þannig aðstæðum, mjög takmarkað aðgengi að íslenskunámi, búandi einungis með öðrum útlendingum, að þjónusta fyrst og fremsta aðra útlendinga, fólk sem hefur líklega aldrei verið boðið inn á íslenskt heimili – það er einfaldlega fáránlegt. Hér er amk verið að reyna að byggja brú til þeirra.“

Sabine Leskopf

Sabine segir að sé íslenskt samfélag ósátt við þessa þróun þurfi að byrja á að loka landinu fyrir ferðamönnum sem hún segist efast stórlega um að sé almennur vilji til að gera.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

„Gríðarmikil“ og óvenjuleg skjálftahrina hafin í Bárðarbungu – Minnir á kvikuinnskot

„Gríðarmikil“ og óvenjuleg skjálftahrina hafin í Bárðarbungu – Minnir á kvikuinnskot
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

„Við erum ekki í stríði – en það er heldur ekki friður“ segir forsætisráðherra Svíþjóðar

„Við erum ekki í stríði – en það er heldur ekki friður“ segir forsætisráðherra Svíþjóðar
Fréttir
Í gær

Verslunarstjóramálið: Menn sem höfðu samræði við konuna báru vitni fyrir dómi – Sigurjón kom nakinn til dyra

Verslunarstjóramálið: Menn sem höfðu samræði við konuna báru vitni fyrir dómi – Sigurjón kom nakinn til dyra
Fréttir
Í gær

Óánægja með svifasein viðbrögð Vegagerðarinnar við holu sem olli miklu tjóni – „Dekkið er handónýtt og ég veit ekki hvort það er meira tjón“

Óánægja með svifasein viðbrögð Vegagerðarinnar við holu sem olli miklu tjóni – „Dekkið er handónýtt og ég veit ekki hvort það er meira tjón“