fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Hvað ef Rússar sigra í stríðinu í Úkraínu? – Sífellt fleiri sérfræðingar velta þeirri niðurstöðu nú fyrir sér

Ritstjórn DV
Mánudaginn 22. apríl 2024 04:05

Úkraínskir hermenn á vígvellinum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það mun hafa miklar hernaðarlegar og pólitískar afleiðingar ef Rússland sigrar í stríðinu við Úkraínu og hertekur allt landið. Þetta er mat sérfræðinga en sífellt fleiri sérfræðingar velta nú þessum möguleika fyrir sér í ljós stöðunnar á vígvellinum.

Rússar hafa sótt fram í austurhluta landsins að undanförnu og Úkraínumenn hafa lítið annað getað gert en reynt að verjast eftir bestu getu. Af þeim sökum hafa margir hernaðarsérfræðingar spurt sig hvað gerist ef Rússland sigrar í stríðinu.

Það sem af er ári hafa Rússar náð að bæta um 360 ferkílómetrum lands við herteknu svæðin í Úkraínu að sögn Jótlandspóstsins.

Margir hernaðarsérfræðingar segja að Rússar séu nú að kalla menn í herinn, styrkja hersveitir sínar og undirbúa stórsókn í sumar.

„Rússar munu sækja hart á. Ef Úkraínumenn fá ekki meira til að verja sig með, þá verður þeim ýtt aftur á bak. Við munum þá sjá í sumar að fremsta víglínan færist til og að Rússar ná meira og meira af Úkraínu á sitt vald,“ sagði Anders Puck Nielsen, hernaðarsérfræðingur við danska varnarmálaskólann, í samtali við Danska ríkisútvarpið.

William Burns, yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA hefur varað við því að Úkraína tapi stríðinu á þessu ári ef landið fær ekki nauðsynlega efnahags- og hernaðaraðstoð frá Vesturlöndum. Kyiv Independent skýrir frá þessu.

Það rofaði þó aðeins til fyrir Úkraínumenn á laugardaginn þegar fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti hjálparpakka til handa þeim upp á 60 milljarða dollara. Nú þarf öldungadeildin að samþykkja frumvarpið og Joe Biden, forseti, að staðfesta það. Talið er að það sé formsatriði þar sem Demókratar hafa meirihluta í öldungadeildinni og Biden vill ólmur koma aðstoð til Úkraínumanna.

Þegar frumvarpið hefur hlotið lokaafgreiðslu og tekið gildi mun ekki líða langur tími þar til vopnin fara að streyma til Úkraínu á nýjan leik því megnið af þeim er nú þegar til staðar í bandarískum birgðageymslu í Evrópu.

Hvað ef?

Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War (ISW) birti nýlega stóra greiningu á hvað gerist ef Rússar sigra í stríðinu.

Segir hugveitan að ef svo illa fer, geti NATO reiknað með að standa andspænis fjölmennu rússnesku herliði allt frá Svartahafi til Norðurskautsins. Þetta muni gera að verkum að Pólverjar, Ungverjar, Slóvakar og Rúmenar standi frammi fyrir hættunni á að Rússar ráðist á ríkin frá landi. Það verði í fyrsta sinn frá hruni Sovétríkjanna sem þau standi frammi fyrir þessari ógn.

Þar sem landamæri NATO verði lengri en áður þurfi að flytja hersveitir til að hægt verði að verja stórt landfræðilegt svæði. Þetta getur aðallega veikt Eystrasaltsríkin sem eru talin í mikilli hættu á að verða fyrir rússneskri árás.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Verð á matvöru hækkar hratt – Hér hefur það þó hækkað mest

Verð á matvöru hækkar hratt – Hér hefur það þó hækkað mest
Fréttir
Í gær

Helgarferð innanlands eða erlendis? – „43.000 ódýrara fyrir okkur að fljúga til London“

Helgarferð innanlands eða erlendis? – „43.000 ódýrara fyrir okkur að fljúga til London“