„Og hvar eigum við gigtarsjúklingar Árna Tómasar að ná í okkar verkjalyf? Er kannski nóg að hringja til landlæknis og fá þau ávísuð þaðan? Að mínu mati og fjölmargra annarra sjúklinga Árna Tómasar svo og fjölda annarra erum við öll stórhneyksluð á framkomu landlæknis í garð Árna Tómasar.“
Þetta segir gigtarsjúklingurinn Kristmann Magnússon í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Eins og ítarlega hefur komið fram í fjölmiðlum svipti Embætti landlæknis Árna Tómas Ragnarsson lækni leyfi til að ávísa lyfjum. Ástæðan er sú að Árni Tómas hefur ávísað morfínskyldum lyfjum til langt leiddra fíknisjúklinga á skjön við lög og reglur. Um er að ræða skaðaminnkandi nálgun á fíkn en þessir sjúklingar Árna Tómasar hafa staðhæft að lyfjaávísanir læknisins hafi gert þeim kleift að lifa eðlilegu lífi, fúnkera í samfélaginu og halda sig frá afbrotum. Núna segist þetta fólk hins vegar vera bjargarlaust.
Kristmann bendir á að straffið á Árna Tómas bitni líka á gigtarsjúklingum hans, ekki bara fíknisjúklingum. Kristmann segist hafa verið hjá Árna Tómasari í 40 ár og lofar hann lækninn:
„Heiðursmaðurinn og stórlæknirinn Árni Tómas Ragnarsson hefur verið minn gigtarlæknir í sl. 40 ár og hvergi hefði ég viljað vera nema hjá honum. Það var fyrir rúmum 40 árum að vinur minn og golffélagi, lyflæknirinn Sigurður Þ. Guðmundsson, greindi mig með gigt en sendi mig samt til tveggja gigtarlækna til að fá greiningu sína staðfesta. Eftir jákvæða niðurstöðu þessara lækna ráðlagði Sigurður mér að leita til Árna Tómasar Ragnarssonar sem þá var svo til nýkominn frá námi í Svíþjóð og hafði læknastofu í kjallaranum á Elliheimilinu Grund. Og síðan þá hefur þessi indæli læknir ekki bara verið minn gigtarlæknir – hann hefur meira og minna séð um að halda heilsufari allrar minnar fjölskyldu í lagi. Árni Tómas er ekki eingöngu gigtarlæknir þótt hann hafi gigtina sem sérfag heldur er hann mjög fær almennur læknir enda hefur hann um árabil verið trúnaðarlæknir Landsbankans og Seðlabankans auk þess að hafa verið yfirlæknir á Grund í fjöldamörg ár.“
Kristmann harmar mjög aðgerðir landlæknis gegn Árna:
„Það tekur mann því mjög sárt þegar landlæknir kemur fram við Árna eins og hann hefur gert með því að svipta hann leyfi til að ávísa meira að segja verkjalyfjum fyrir okkur gigtarsjúklingana sem hann hefur gert í 40 ár. Ef nauðsyn var að svipta hann einhverju þá var alveg nóg að svipta hann leyfi til að ávísa þessum sterku morfínlyfjum til fíklanna en ekki almennum verkjalyfjum til okkar gigtarsjúklinganna. Dreg ég þó sterklega í efa að það hafi verið rétt að svipta hann leyfinu því Árni var að vinna gott verk með því að gefa þessum fíklum örugg og góð lyf og það eingöngu í hæfilegum dagskömmtum fyrir hvern og einn.“
Kristmann telur mikið vanta upp á að heilbrigðisyfirvöld mæti þeim vanda sem straffið á Árna Tómas skilur eftir sig. Hann segir ekki rétt sem Embætti landlæknis heldur fram að fíknisjúklingar hans geti fengið örugga og góða þjónustu á Vogi. Dæmi, sem t.d. hafa komið fram í fréttum RÚV, sýni annað.