Hinn sænski Shokri Keryo var í morgun dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að skjóta á fjóra unga karlmenn í Úlfarsárdal í nóvember á síðasta ári. Þeirra á meðal var Gabríel Douane Boama en Gabríel hefur verið nokkuð í fréttum undanfarin misseri meðal annars eftir að hann slapp úr haldi lögreglu í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Skotárásin í Úlfarsárdal vakti mikinn óhug ekki síst vegna þess að eitt skotanna hafnaði í íbúð fjölskyldu sem tengdist málinu ekki á nokkurn hátt.
Shokri Keyo er 21 árs gamall.
Í fréttum RÚV kemur fram að við meðferð málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur hafi Gabríel ekki sagst muna neitt um árásina og ekki vita neitt um hana en hann særðist lítillega í henni.
Einnig kemur fram að Keyo hafi setið í gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn. Vopnið sem beitt var í árásinni hefur ekki fundist og Keyo neitar alfarið sök.