Þingflokkur Pírata hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að Útlendingastofnun verði lögð niður og verkefni hennar færð til Þjóðskrár og eftir atvikum annarra stofnana eða embætta.
Samkvæmt tillögunni yrði ráðherra falið að skipa starfshóp til að meta áhrif þessara breytinga, þar með talið á ríkissjóð, greina hvaða lagabreytinga og annarra aðgerða sé þörf og leggja drög að nauðsynlegum lagabreytingum. Stefnt verði að því að undirbúningi verði lokið ekki seinna en í september 2025 og að yfirfærslan taki gildi 1. janúar 2026. Ráðherra flytji Alþingi munnlega skýrslu um gang verkefnisins á þriggja mánaða fresti frá samþykkt þingsályktunartillögunnar.
Í greinargerð með tillöguni segir að markmið hennar sé að minnka yfirbyggingu, einfalda regluverk og auka skilvirkni stjórnsýslunnar í málefnum erlendra ríkisborgara hér á landi, án aðgreiningar. Umsjón með málefnum erlendra ríkisborgara sé nú þegar að einhverju leyti skipt á milli Útlendingastofnunar og Þjóðskrár eftir því hvort viðkomandi einstaklingur er borgari ríkis innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins. Að mati Pírata sé slík tvískipting ónauðsynleg, óskilvirk og kostnaðarsöm.
Píratar segja í greinargerðinni að verði Útlendingastofnun lögð niður og verkefni hennar færð til Þjóðskrár eða annarrar sameinaðrar stofnunar verði það til þess að útlendingar sem koma til landsins geti allir leitað þjónustu hjá sömu stofnun, hvaðan sem þeir koma.
Í greinargerðinni er meðal annars vísað í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2015 um málefni útlendinga og sagt að þar hafi verið lagt til að lagaákvæði yrðu samræmd og einfölduð og forræði mála færð til einnar stofnunar og eins ráðuneytis svo að stjórnsýslan yrði í senn hagkvæmari og skilvirkari. Í skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands árið 2017, um þjónustu við flóttafólk, hafi verið lagt til að Útlendingastofnun yrði lögð niður.
Vilja Píratar í lok greinargerðarinnar meina að verði Útlendingastofnun lögð niður og verkefni hennar flutt til annarra stofnanna verði rekstrarkostnaður lægri þar sem yfirbygging minnki, stjórnendum fækki og möguleikar opnist á aukinni skilvirkni með samnýtingu vinnuafls, aðstöðu og aðfanga.