Loksins hefur tekist að fjármagna kaup á 500 þúsund sprengjuskot fyrir stórskotalið Úkraínuhers. Verkefnið er að frumkvæði Tékka en fjölmörg ríki, þar á meðal Ísland, tóku þátt í því.
Petr Fiala, forsætisráðherra Tékklands, tilkynnti á þriðjudag að fjármögnuninni væri lokið. 20 ríki hefðu veitt fjármagn til þess að kaupa skotfærin fyrir Úkraínuher sem hefur nú varist innrás Rússa í rúmlega tvö ár.
Upphaflega var ætlunin að kaupa eina milljón sprengjuskota fyrir Úkraínu en framboðið og framleiðslugetan bauð ekki upp á það.
„Ég er glaður núna, um tuttugu ríki hafa tekið þátt í verkefninu okkar. Allt frá Kanada, Þýskalandi, Hollandi og til Póllands. Þökk sé ríkjunum getum við núna veitt 500 þúsund sprengjuskot. Við trúum því að fleiri sendingar munu fylgja í kjölfarið,“ sagði Fiala. Afhendingin á fyrstu skotunum fer fram í júní.
Á meðal annarra ríkja sem taka þátt má nefna Belgíu, Danmörku, Finnland, Lúxemborg, Noreg, Portúgal, Slóveníu og Ísland. En Íslendingar greiddu 300 milljónir króna.
„Ég vil sérstaklega taka það fram að það verður framhald á verkefninu. Takmark okkar er að búa til langtíma kerfi þar sem skotfærum fyrir stór vopn verður komið áleiðis. Þetta mun skipta máli á víglínunni,“ sagði Fiala.