Jón Gnarr hefur yfirburði forsetaframbjóðenda á Facebook en hann hefur ekki roð í Ísdrottninguna, Ásdísi Rán, á Instagram. Forsetaframbjóðendur reyna að trana sér fram á samfélagsmiðlum en aðstöðumunurinn þar er gríðarlegur. Sumir eru með tugþúsundir fylgjenda en aðrir aðeins nokkra tugi, ef það.
DV leit yfir sviðið til að sjá til hversu margra helstu forsetaframbjóðendur væru að ná til á samfélagsmiðlum. Facebook er langmikilvægasti miðillinn, Instagram kemur þar á eftir og svo X (áður Twitter) sem sumir frambjóðendur sniðganga þó.
Einstaka frambjóðendur eru með viðveru á öðrum samfélagsmiðlum, svo sem Youtube, TikTok og Linkedin en DV einskorðaði sig við þá þrjá stærstu.
Það hjálpar til að hafa verið borgarstjóri Reykjavíkur, vinsæll leikari, rithöfundur og hluti af bæði Tvíhöfða og Fóstbræðrum þegar þú ferð í forsetaframboð, og það sést á fjölda fylgjenda á helstu samfélagslmiðlum.
Jón Gnarr ber höfuð og herðar yfir aðra frambjóðendur á Facebook þar sem hann er með tvær síður. Jón Gnarr sem hefur 93 þúsund fylgjendur og Jón forseti 2024 sem hefur 16 þúsund, en hin síðarnefnda var áður síða Besta flokksins í borgarstjórn.
Jón Gnarr er einnig sigurvergarinn á X með 58 þúsund fylgjendur en yfirburðirnir þar eru ekki jafn miklir. Eini staðurinn þar sem hann trónir ekki á toppnum er Instagram en þar er hann í fjórða sæti með „aðeins“ tæplega 19 þúsund fylgjendur.
Facebook: 109.000
Instagram: 18.800
X: 58.000
Ísdrottningunni sjálfri Ásdísi Rán Gunnarsdóttur hefur gengið brösuglega að skrapa saman þeim 1500 meðmælum sem þarf til að geta verið á kjörseðlinum í júní. Hún stendur þó á gríðarlega stóru sviði og rödd hennar nær til margra.
Á tveimur Facebook síðum sínum, Asdis Ran (IceQueen) og Ásdís Rán Gunnarsdóttir (The Ice Queen) nær hún samanlagt til 74 þúsund manns. Hún er einnig sterkust allra á Instagram með hátt í 36 þúsund fylgjendur.
Ásdís hefur notað þessar síður til að auglýsa sig sem fyrirsæta í gegnum tíðina og vandi hennar er kannski sá að stór hluti fylgjenda hennar er ekki með kosningarétt á Íslandi.
Facebook: 74.000
Instagram: 35.600
X: 539
Sem forsætisráðherra í meira en sex ár á Katrín Jakobsdóttir vitaskuld nokkra fylgjendur á samfélagsmiðlum. Þó hún sé eftirbátur Jóns og Ásdísar þá er hún nokkuð jafnsterk á öllum þremur miðlunum sem DV hafði til skoðunar.
Eins og margir pólitíkusar er hún sterkust á X, en þar hefur hún yfir 50 þúsund fylgjendur. Fylgjendurnir á bæði Facebook og Instagram eru hins vegar ríflega 30 þúsund.
Facebook: 30.000
Instagram: 33.300
X: 50.400
Annar frambjóðandi sem nýtur þess að koma úr leikhúsinu er Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir. Steinunn, sem virðist njóta mikils stuðnings af vinstri væng stjórnmálanna, hefur 16 þúsund fylgjendur á Facebook, þar sem hún einmitt tilkynnti framboð sitt.
Þrátt fyrir það hafa ekki borist fréttir af því að Steinunn hafi náð að fylla meðmælaskrárnar.
Facebook: 16.000
Instagram: 384
X: 373
Framboð Höllu Tómasdóttur var spútnik framboðið árið 2016 en nú virðist vera að fjara undan því miðað við skoðanakannanir. Halla er þó enn þá sterk á samfélagsmiðlum og þekkt andlit í huga flestra kjósenda.
Facebook: 12.000
Instagram: 4.622
X: 5.391
Guðmundur Felix Grétarsson, komst í heimsfréttirnar þegar á hann voru græddir tveir handleggir. Guðmundur hefur verið mjög opinn með allt það ferli og hefur haft sterka viðveru á samfélagsmiðlum, sérstaklega Instagram. Hann nýtur þess núna þó að fylgjendur hans séu vafalítið ekki allt saman Íslendingar.
Facebook: 10.000
Instagram: 22.700
X: –
Þó að stjórnmálafræðingurinn Baldur Þórhallsson sé sæmilega þekktur er hann einn af þeim frambjóðendum sem hafa þurft að hafa fyrir því að byggja upp samfélagsmiðlaviðveru sína í kosningabaráttunni.
Líklega er það taktík að hafa eiginmanninn Felix Bergsson svo sýnilegan, enda er hann miklu þekktara andlit. Hafa þeir náð að byggja upp nærri 23 þúsund manna líflegan umræðuvettvang en mun færri fylgja stuðningssíðunni.
Facebook: 9.100
Instagram: 1.012
X: 481
Spútnikframboðið í ár virðist ætla að verða framboð Höllu Hrundar Logadóttur orkumálastjóra. Halla var hins vegar nær óþekkt hjá almenningi, kom seint fram og hefur því þurft að hafa hraðar hendur til þess að byggja upp samfélagsmiðlana.
Eins og netverjar hafa margir tekið eftir þá er varla þverfótað fyrir auglýsingum Höllu Hrundar á samfélagsmiðlum þessa dagana. En það er einmitt ókosturinn við að vera óþekkt andlit, það kostar peninga og meiri vinnu að koma sér á framfæri.
Facebook: 3.300
Instagram: 554
X: 561
Það voru ekki liðnir mjög margir klukkutímar frá því að Guðni Th. Jóhannesson lýsti því yfir í áramótaávarpi að hann hyggðist ekki bjóða sig fram aftur þar til lögmaðurinn Arnar Þór Jónsson reið fram á völlinn.
Arnar virðist eiga nokkuð dyggan hóp aðdáenda yst á hægri vængnum, svo sem hjá fólki sem er á móti covid sóttvarnaraðgerðum og orkupakka Evrópusambandsins. Eins og skoðanakannanir og samfélagsmiðlar Arnars gefa til kynna þá er það ekki fjöldahreyfing.
Facebook: 2.100
Instagram: 371
X: –
Um 80 manns eru í framboði til embættis forseta Íslands samkvæmt island.is þar sem hægt er að sjá hverjir eru að safna meðmælum. Ómögulegt er að lista allt það fólk upp en hér eru tölur frá nokkrum sem hafa formlega lýst yfir framboði.
Ástþór Magnússon
Facebook: 1.300
Instagram: 115
X: 78
Helga Þórisdóttir
Facebook: 435
Instagram: 37
X: –
Sigríður Hrund Pétursdóttir
Facebook: 334
Instagram: 193
X: –
Guðbergur Guðbergsson
Facebook: 291
Instagram: –
X: –