Samkvæmt heimildum DV hafa lögregluyfirvöld í Kanada og á Íslandi fengið upplýsingar um hvar Jóhann Scott Sveinsson heldur sig en hann flúði frá heimabæ sínum, Abbotsford í Bresku Kólumbíu, eftir að ákæra var gefin út á hann fyrir vörslu og dreifingu barnaníðsefnis.
Fyrir skömmu var gefin út handtökuskipun á Jóhann en þá vissu lögregluyfirvöld ekki hvar hann var niðurkominn. Hann mun þá hafa flutt í snarhasti með eiginkonu sinni og barni til bæjarins Stoney Plain, sem er innan Edmonton-héraðs í Alberta-ríki Kanada. Svæðið mun vera utan lögsögu lögreglu í heimabæ Jóhanns, Abbotsford.
DV hefur nú fengið nánari upplýsingar um í hverju meint brot Jóhanns eru fólgin. Samkvæmt þeim heimildum mun hann ekki hafa komið að frumframleiðslu barnaníðsefnis heldur hafi hann hlaðið niður slíku efni og síðan dreift því í lokuðum nethópum. Um er að ræða efni sem sýnir mæður misnota syni sína kynferðislega og eru þolendurnir börn undir tíu ára aldri. Jóhann mun hafa tjáð eiginkonu sinni að hann sé ekki haldin barnagirnd heldur sé hann kynlífsfíkill og sú fíkn hafi stigmagnast og leitt hann út á þessar brautir.
Jóhann er rúmlega þrítugur að aldri og á hann íslenskan föður og skoska móður. Hann flutti til Íslands frá Skotlandi árið 2009 og bjó í um áratug í Hveragerði. Jóhann hefur starfað við kvikmyndagerð hérlendis, er giftur íslenskri konu og eiga þau einn son saman. Samkvæmt heimildum DV er annað barn á leiðinni hjá hjónunum og mun fæðast í maí.
Jóhann flutti til Kanada fyrir um þremur árum. Ákæran gegn honum lýtur að dreifingu barnaníðsefnis í Kanada í júní 2022 og janúar 2023, sem og vörslu barnaníðsefnis í maí 2023.