fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Anna Kristjáns: Þess vegna eru íbúar á Tenerife búnir að fá nóg af túristum

Ritstjórn DV
Mánudaginn 15. apríl 2024 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Anna Kristjánsdóttir, íbúi á Tenerife til nokkurra ára, segist að hluta til hafa skilning á mótmælum íbúa Tenerife á þeirri túristavæðingu sem einkennt hefur eyjuna fögru á undanförnum árum.

Anna skrifar um málið í pistli sem hún birti á Facebook-síðu sinni í morgunsárið en töluvert hefur verið fjallað um vaxandi andúð íbúa á Tenerife til ferðamennsku. Næstkomandi laugardag eru til dæmis fyrirhuguð mótmæli gegn túrismanum en í fyrravor voru einnig haldin býsna kröftug mótmæli af svipuðum toga.

Sjá einnig: Þola Tenerife-búar ekki lengur túrista? – Innfæddir búa í bílum og hellum af því húsnæði er of dýrt

„Að undanförnu hafa borist fregnir af því til Íslands að íbúarnir á Tenerife séu búnir að fá nóg af túrismanum. Þessar fregnir eru bæði réttar og rangar,“ segir Anna og nefnir að lítið sem ekkert hafi verið að gerast á eyjunni eftir að heimsfaraldur Covid-19 reið yfir. Hún fer svo yfir það sem breyst hefur á síðustu misserum og árum.

„En eftir haustið 2021 gerðist eitthvað sem ekki átti að eiga sér stað. Fasteignaverðið rauk upp úr öllu valdi sem og leiguverðið á íbúðum hérna. Fjársterkir aðilar víða að úr Evrópu hófu að kaupa hér húseignir til nota þegar skroppið var í orlof. Allt seldist upp sem var til sölu og oft á yfirverði. Á sama tíma var ekkert verið að byggja hér í Los Cristianos,“ segir Anna en Los Cristianos er á suðurströnd Tenerife og var á árum áður rólegur bær þar sem helsta atvinnugrein íbúa var sjávarútvegur.

„Fólkið sem hafði búið hér í sátt við náttúruna og á viðráðanlegu leiguverði þurfti skyndilega að greiða ofurupphæðir fyrir að leigja hér og ef einhver íbúð losnaði var hún samstundis yfirboðin af fólki frá norður-Evrópu. Fólkið sem vann verkin hafði ekki efni á að búa lengur á svæðunum nær ströndinni, flutti til fjalla, í hreysi eða jafnvel tjöld til að komast af,“ segir Anna sem þekkir svæðið vel enda búin að vera búsett á Tenerife frá árinu 2019.

Hún nefnir að í Los Cristianos hafi ekki verið byggðar nýjar íbúðir nærri ströndinni í mörg ár.

„Göturnar hafa verið lagðar, jafnvel með ljósastaurum og tilheyrandi svo ekki vantar lóðirnar, en það vantar bara fólkið sem vill byggja á lóðunum. Austast í byggðinni eru nokkrir nýlega byggðir íbúðakjarnar, væru vafalaust fínir fyrir íbúana, en þeir standa nánast hálftómir. Eigendurnir búa í Evrópu og nota þessar íbúðir sem orlofsíbúðir og dvelja í þeim einn eða kannski tvo mánuði á ári, en leigja þá stundum dýru verði til túrista þótt slíkt sé í sumum tilfellum óleyfilegt. Íbúar eyjarinnar eiga ekki kost á þessum íbúðum enda alltof dýrar. Fyrir bragðið búa þeir í hreysum ofan við byggðina eða jafnvel í tjöldum innan byggðarinnar,“ segir hún.

Anna segir að vissulega séu fleiri ástæður fyrir þessu ástandi og nefnir hún í því samhengi græðgisvæðingu erlendra hóteleigenda og lág laun starfsmanna.

„Þegar þetta er haft í huga skil ég vel þá íbúa sem ætla að mótmæla túristavæðingunni næstkomandi laugardag. Ástandið er ekki túristunum að kenna, fremur hinu opinbera eða þá byggingafélögunum sem eiga aðgang að þessum byggingalóðum. Ekki spyrja mig af hverju ekkert er byggt hérna. Nóg er plássið,“ segir hún að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Hraunið fer brátt að renna inn á bílastæði Bláa lónsins – Sjáðu myndina

Hraunið fer brátt að renna inn á bílastæði Bláa lónsins – Sjáðu myndina
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“