Sýn tilkynnti í dag að frá og með mánudeginum 15. apríl verða kvöldfréttir Stöðvar 2 í opinni dagskrá. Kvöldfréttirnar hafa verið í læstri dagskrá í rúm þrjú ár.
Í viðtali við Vísi þar sem breytingin var kynnt segir Erla Björg Gunnarsdóttir ritstjóri að það sé mikilvægt að landsmenn hafi greiðan aðgang að fleiri en einum sjónvarpsfréttatíma. „Það hafa síðustu misseri sýnt okkur þar sem náttúruhamfarir, væntanlegar forsetakosningar og hrókeringar í ríkisstjórn hafa verið meðal fréttamála,“ segir hún.
Opinn gluggi mun ná yfir kvöldfréttirnar sem hefjast klukkan 18:30 sem og sportpakkann og Ísland í dag.
Í janúar árið 2021 var tilkynnt að kvöldfréttirnar yrðu í læstri dagskrá. Að sögn Þórhalls Gunnarssonar, þáverandi framkvæmdastjóra fjölmiðla Stöðvar 2 og Vodafone, stóðu auglýsingatekjur ekki undir rekstri fréttastofunnar einnar og sér.