Eins og DV hefur fjallað um áður er frumvarp til laga um dánaraðstoð til meðferðar á Alþingi. Samkvæmt frumvarpinu yrði fólki hér á landi sem þjáist af ólæknandi sjúkdómi og býr við óbærilega þjáningu heimilt, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að óska eftir dánaraðstoð. Á fjórða tug umsagna hafa verið veittar um frumvarpið og koma þær bæði frá einstaklingum og félagasamtökum. Fleiri umsagnir eru jákvæðar í garð frumvarpsins en meðal þeirra samtaka sem lýst hafa sig andsnúin frumvarpinu er Læknafélag Íslands. Formaður félagsins, Steinunn Þórðardóttir, hafði áður greint frá andstöðu félagsins en nú hefur umsögn þess verið birt á vef Alþingis. Í henni kemur meðal annars fram að dánaraðstoð brjóti í bága við siðareglur lækna.
Í umsögninni er lagst eindregið gegn samþykkt frumvarpsins.
Einnig er gerð athugasemd við þá fullyrðingu í greinargerð með frumvarpinu að 56 prósent lækna séu alfarið, mjög eða frekar hlynnt því að dánaraðstoð verði leyfð á Íslandi. Fullyrt er í umsögninni að þessi fullyrðing í greinargerðinni byggi á könnun sem gerð hafi verið á síðasta ári meðal lækna og fleiri heilbrigðisstarfsmanna. Úrtakið hafi verið 400 læknar. Samtals hafi 133 læknar svarað, þriðjungur þeirra sem hafi verið spurðir. Læknafélagið segist telja að þessar niðurstöður séu ekki tölfræðilega marktækar í ljósi lélegrar þátttöku og finnist miður að „stuðningsmenn dánaraðstoðar skuli ítrekað nota þessa könnun til að halda því fram að læknar séu fylgjandi dánaraðstoð.“ Svo sé ekki.
Því næst er í umsögninni vikið að siðareglum lækna og áhersla lögð á að dánaraðstoð gangi þvert gegn þeim en þær nýjustu hafi verið samþykktar 2021. Með samþykkt siðareglnanna samþykki þeir læknar sem séu félagsmenn í Læknafélaginu að hlutverk þeirra sé að vernda og virða líf og heilbrigði; lækna og líkna. Vitnað er í umsögninni til 1. greinar siðareglnanna:
„Lækni ber að virða mannslíf og mannhelgi. Hann skal hjálpa heilbrigðum að varðveita heilsu sína, sjúkum að öðlast heilbrigði og veita þjáðum líkn.“
Enn fremur segir í athugasemdinni:
„Allar reglur sem snúa að því að læknar skuli hjálpa einstaklingi að binda enda á líf sitt ganga því þvert gegn siðareglum lækna.“
Vísað er einnig til þess í umsögninni að Læknafélagið sé eitt stofnfélaga Alþjóðasamtaka lækna (World Medical Association). Af 114 aðildarfélögum hafi aðeins 2 samþykkt dánaraðstoð í sínum löndum. Stuðningur lækna við dánaraðstoð sé mjög lítill.
Að lokum er í umsögninni tekið undir umsögn landlæknis um frumvarpið þar sem fram hafi komið að meiri umræðu sé þörf um dánaraðstoð. Læknafélagið muni því efna til málþings um dánaraðstoð á næstu mánuðum og muni í kjölfarið væntanlega gera eigin könnun meðal félagsmanna um þeirra afstöðu til dánaraðstoðar.