fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Hæstiréttur dæmdi kennaranum sem sló nemanda tæpar 11 milljónir í bætur

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 10. apríl 2024 16:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hæstiréttur hefur kveðið upp dóm í máli konu sem var sagt upp starfi sínu sem íþróttakennari í Dalvíkurskóla eftir að hafa slegið nemanda sem hafði áður slegið hana. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að um ólögmæta uppsögn væri að ræða og dæmdi Dalvíkurbyggð til að greiða konunni 10,8 milljónir króna í bætur auk vaxta.

Málið kom upp í maí 2021 og vakti mikla athygli. Eftir uppsögnina höfðaði konan mál fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra sem dæmdi henni í vil og sagði atvikið ekki réttlæta fyrirvaralausa uppsögn hennar úr starfi. Kom þá upp úr krafsinu að starfshættir konunnar voru umdeildir á Dalvík og töldu ýmsir íbúar þar því ranglega haldið fram að þar til málið kom upp hafi konan átt að baki flekklausan feril í starfi.

Sjá einnig: Ólga á Dalvík: Kennarinn sagður umdeildur og því mótmælt að hún hafi flekklausan feril

Dómi héraðsdóms var hins vegar snúið við í Landsrétti og veitti Hæstiréttur konunni leyfi til að áfrýja málinu til réttarins á grundvelli þess að málið hefði fordæmisgildi um hvenær væri heimilt að víkja starfsmanni sveitarfélags fyrirvaralaust úr starfi.

Um málsatvik segir í dómnum að konan hafi verið að kenna drengjum í 7. og 8. bekk íþróttir á íþróttavelli við skólann. Hafi umræddur nemandi, stúlka, sem þá var á fjórtánda ári sest á grasflöt við völlinn. Kennarinn hafi beðið hana að færa sig þar sem hún truflaði kennsluna. Konan hélt því fram fyrir héraðsdómi að hún hafi eftir ítrekaðar beiðnir til stúlkunnar tekið um úlnlið hennar og horft beint í augu hennar. Hafi stúlkan þá sagt: „ekki fokking snerta mig“ og slegið konuna kröftuglega í andlitið. Hafi konan brugðist ósjálfrátt við í sjálfsvörn og gefið stúlkunni „léttan kinnhest“.

Í dómi Hæstaréttar segir að í greinargerð Dalvíkurbyggðar fyrir héraðsdómi hafi komið fram að óumdeilt sé að málsatvik hafi verið með þessum hætti.

Hafi tilkynnt málið strax

Konan mun hafa tilkynnt þegar í stað um málið til meðal annars föður stúlkunnar og skólastjórans. Málið var kært nokkrum dögum síðar til lögreglu en á endanum fellt niður. Var konunnni í júlí 2021 sagt upp störfum með vísan til ákvæða í kjarasamningi um að hún hefði orðið vís að grófu broti í starfi. Einnig var vísað til reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins og lög um grunnskóla þar sem kæmi m.a. fram að bannað væri að beita líkamlegum refsingum í skólastarfi og gæta yrði kurteisi í samskiptum við börn.

Félag grunnskólakennara mótmælti uppsögninni og sagði skilyrði fyrirvaralausrar uppsagnar ekki fyrir hendi og vísaði til þess að aðrir kennarar í skólanum hefðu lýst yfir áhyggjum af agaleysi í skólanum og auknu ofbeldi nemenda í garð kennara.

Konan hefur verið án vinnu síðan henni var sagt upp og hefur leitað sé sálfræðiaðstoðar.

Í dómnum segir að Dalvíkurbyggð hafi haldið því fram fyrir Landsrétti að málsatvik væru eftir allt saman ekki óumdeild.

Konan hélt því fram fyrir Hæstarétti að ákvæði grunnskólalaga um líkamlegar refsingar ættu ekki við þar sem nemandinn hefði ráðist á sig og því ætti að líta til ákvæða laganna um slíkt. Dalvíkurbyggð hafi ekki virt andmælarétt hennar og ekki fært rök fyrir því að háttsemi hennar hafi uppfyllt ákvæði kjarasamningsins um gróft brot í starfi. Hún hafi sinnt öllum skyldum sínum en Dalvíkurbyggð ekki sinnt þeirri skyldu sinni að tryggja starfsmönnum sínum öruggt vinnuumhverfi en kennarar hefðu lengi kvartað undan öryggisleysi vegna hegðunar nemenda.

Skipti ekki máli hvort um ósjálfráð viðbrögð var að ræða

Um málsástæður Dalvíkurbyggðar segir meðal annars í dómnum að misræmi sé í frásögn konunnar um hvort hún hafi aðeins lagt hönd á úlnlið nemandans eða tekið um hann. Það skipti í raun ekki máli hvort viðbrögð hennar voru ósjálfráð, hún hafi slegið nemanda í andlitið. Höggið sem hún veitti nemandanum hafi ekki verið réttlætanlegt í ljósi reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins. Líta hafi þurft til yfirburðastöðu konunnar sem kennara gagnvart nemandanum og að það sé skylda sveitarfélagsins að tryggja nemendum öryggi í skólanum. Skilyrði kjarasamnings fyrir tafarlausri uppsögn hafi verið uppfyllt.

Í niðurstöðu Hæstaréttar er þeirri staðhæfingu sveitarfélagsins andmælt að engu máli hafi skipt hver aðdragandinn að því að konan sló stúlkuna hafi verið:

„Þótt tekið sé undir með stefnda að aldrei sé réttlætanlegt að grunnskólakennari veiti nemanda kinnhest létti það ekki skyldu af stefnda að skoða háttsemi áfrýjanda heildstætt á grundvelli allra atvika og taka í því ljósi afstöðu til þess hvort önnur vægari úrræði væru tæk en fyrirvaralaus uppsögn.“

Hæstiréttur segir það liggja fyrir, samkvæmt greinargerð Dalvíkurbyggðar fyrir héraðsdómi, að viðbrögð konunnar hafi verið ósjálfráð og komið í kjölfar atlögu sem nemandinn gerði að henni. Rétturinn fellst ekki á að um hafi verið að ræða líkamlega refsingu í skilningi áðurnefndrar reglugerðar:

„Ekki verður ætlast til að starfsfólk bregðist ávallt við óvæntum og bráðum aðstæðum á óaðfinnanlegan hátt,“ segir í dómnum.

Hæstiréttur telur konuna hafa sinnt skyldum sínum eftir atvikið með því að tilkynna það föður nemandans og skólayfirvöldum. Skólastjórinn hafi hins vegar ekki gripið til sérstakra aðgerða og eftirfylgni eins og rétt hefði verið. Þótt konan eigi sér málsbætur hafi framkoma hennar verið óhæfileg en réttu viðbrögðin hefðu verið að veita henni áminningu. Rétturinn fellst ekki á að hegðun hennar hafi uppfyllt silyrði kjarasamnings fyrir tafarlausri uppsögn og hafi ekki falið í sér gróft brot í starfi. Þar af leiðandi er það dómur Hæstarréttar að uppsögnin sé ólögmæt og dæmdi rétturinn konunni samtals 10,8 milljónir króna í bætur vegna fjártjóns og miskabætur, auk dráttarvaxta.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Í gær

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“