Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur sakar sjónvarpsmanninn Gísla Martein Baldursson um smættun í garð Hrafns Guðmundssonar kollega síns í þættinum Vikunni í gær. Mistökin hafi verið hjá tæknifólki RÚV.
„Það fauk dálítið í mig í gærkvöldi að sjá þegar Gísli Marteinn Baldursson upphafði sjálfan sig á kostnað Hrafns Guðmundssonar,“ segir Einar í færslu á samfélagsmiðlum. En hann er mjög virkur þar og birtir ýmis tíðindi af veðri. Nú beinir hann hins vegar spjótum sínum að sjónvarpsmanninum landsþekkta.
Í yfirferð á fréttum vikunnar hjá Gísla Marteini grínaðist hann með útsendingu veðurfrétta fyrr um kvöldið þar sem birtist fyrir mistök upptaka sem sýndi Hrafn lýsa veðri við ranga mynd. Veðurfréttirnar eru ekki teknar upp beint og því er svona bútum alltaf hent út, nema í þetta skiptið hefur það augljóslega gleymst af hálfu tæknifólks.
„Sjónvarpið hafði fyrr um kvöldið gert þau mistök að senda út ranga upptöku af byrjun veðurfregna þar sem Hrafn hafði greinilega raðað kortum sínum í ranga röð,“ segir Einar. „Hann bað í útsendingunni að fá að byrja upp á nýtt. Getur alltaf komið fyrir og í stað þess að RÚV biðji hann kurteislega afsökunar (sem tæknifólkið í útsendingu hefur e.t.v gert?), kemur fjölmiðillinn sama kvöld og dregur stólpagrín að að Hrafni!“
Einar segir þetta hugsanlega vera full mikla viðkvæmni af sinni hálfu en það hafi stuðað hann að Gísli Marteinn nefndi Hrafn aldrei á nafn. Talaði ítrekað um hann sem „veðurfræðinginn.“
„Í því felst ákveðin smættun á þeim sem um er fjallað,“ segir Einar og bendir á að í næsta glensi var Magnús Tumi Guðmundsson jarðfræðingur nefndur á nafn, en ekki aðeins kallaður „jarðfræðingurinn.“
„Yfir þessu flissuðu gestirnir með Gísla, nema Katrín Jakobsdóttir sem kann sig í aðstæðum sem þessum,“ segir Einar. „Þau Hrafn Guðmundsson, Birta Líf Kristinsdóttir, Theódór Hervarsson, Kristín Hermannsdóttir og Sigurður Jónsson eiga þakkir skyldar að sinna þessu verkefni kvöld eftir kvöld og ár eftir ár, að miða veðurspám til landsmann af alúð. Mæta upp í útvarpshús síðdegis (á versta tíma dagsins). Mæta litlum skilningi þeirra sem eru í óða önn að undirbúa kvöldfréttirnar – eru frekar fyrir en hitt. Dagskrárstjórn er oftast enginn, önnur en sú að halda sig innan tímamarka. Þekki það vel af eigin raun og held ekkert hafi breyst í Efstaleitinu í því tilliti.“