Fimm voru handteknir í umfangsmiklum aðgerðum lögreglunnar í dag á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Suðurnesjum og Norðurlandi eystra, vegna rökstudds gruns um mansal, peningaþvætti, brot á atvinnuréttindum útlendinga og gruns um skipulagða brotastarfsemi. RÚV greindi frá.
Húsleit var gerð á tugum staða um land allt, en um er að ræða stærstu aðgerð lögreglunnar af þessu tagi. Húsleitir voru gerðar á heimilum fólks og fyrirtækja.
Veitingastaðirnir í eigu Davíðs Viðarssonar voru lokaðir víða, en hann á Pho Víetnam og Wok On. Grunur leikur á að hann hafi brotið á réttindum starfsfólks, en hann á veitingastaði og aðra staði víða um land, meðal annars gistihúsið Kastali Guesthouse í miðbæ Reykjavíkur.
Krónan hefur slitið samstarfi við Davíð, en þrír veitingastaðir Wok On voru reknir í verslunum Krónunnar. Aðgerðirnar standa enn yfir.
Sjá einnig: Umfangsmiklar lögregluaðgerðir í höfuðborginni – Húsleitir á fjölmörgum stöðum