Yfirstjórn Menntaskólans á Laugarvatni fundar nú um málefni Helga Helgasonar, kennara við skólann, sem lét til sín taka í umræðum á samfélagsmiðlum um framlag Bashar Murad, Wild West, í Söngvakeppni sjónvarpsins um helgina. Hafa ummælin vakið talsverða athygli en Helgi uppnefndi meðal annars Bashar með rasískum hætti.
„Verða úrslitin í kvöld heiðarleg eða verður þeim hagrætt af RÚV?? Ætla þeir á RÚV að láta grenjandi og illa skeindan Palestínuaraba vinna?,“ skrifaði Helgi meðal annars í upphafi færslu á Facebook-síðu íslensku Þjóðfylkingarinnar en síðar breytti hann færslunni og fjarlægði verstu ummælin.
Fannst mörgum það ekki sæmandi að framhaldsskólakennari við hefði slíkan talsmáta. Jóna Katrín Hilmarsdóttir. skólameistari ML, staðfestir í samtali við DV að kvartanir hafi borist og verið sé að funda um næstu skref.
„Okkur hafa borist þessar ábendingar. Við höfum verið funda um þetta mál í dag. Menntaskólinn á Laugarvatni lítur þessi ummæli mjög alvarlegum augum. Niðurstöðu í málinu er að vænta í kvöld. Við munum birta yfirlýsingu um málið í fyrramálið eða á hádegi á morgun,“ segir Jóna Katrín.