fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fréttir

Flugfélag viðurkenndi bótaskyldu en tveir farþegar enduðu í mínus

Ritstjórn DV
Mánudaginn 4. mars 2024 12:00

Mynd: DV/Maggi gnúsari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í lok febrúar var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjaness í máli karls og konu, sem bæði eru íslensk, gegn ítalska flugfélaginu Neos. Maðurinn og konan kröfðust bóta vegna átta klukkustunda tafar á flugi félagsins frá Ítalíu til Íslands. Kröfðust þau þess að þeim yrði greitt hvoru um sig 56.452 krónur í bætur auk dráttarvaxta. Dómurinn dæmdi hins vegar flugfélaginu í vil og situr fólkið uppi með málskostnað sem er nokkuð hærri en þær bætur sem það krafðist, séu vextir ekki teknir með í reikninginn, en fólkið hafði þó fengið greiddar bætur frá flugfélaginu, án vaxta. Flugfélagið viðurkenndi frá upphafi að því bæri að greiða bætur en vildi ekki gera það lengi vel vegna skorts á umboði lögmanns fólksins til að taka við greiðslu fyrir þeirra hönd.

Í dómnum segir að aðalkröfur fólksins hafi verið að hvort þeirra um sig myndi frá 56.452 krónur í bætur ásamt vöxtum og dráttarvöxtum frá febrúar 2022 að frádregnum 58.444 krónum sem flugfélagið greiddi þeim báðum í janúar á þessu ári.

Vildu borga beint til fólksins og kröfðust umboðs

Flugið sem tafðist og maðurinn og konan áttu bókað sæti í var frá Veróna á Ítalíu til Íslands, í lok febrúar 2022, og fóru þau fram á staðlaðar bætur vegna tafanna.

Í dómnum er samskiptum lögmanns hjónanna við flugfélagið lýst. Viku eftir flugið sendi lögmaðurinn, sem samkvæmt dómnum er Ómar Valdimarsson, kröfu til flugfélagsins um að bætur yrðu greiddar og þá inn á fjárvörslureikning lögmannstofunnar. Flugfélagið svaraði með stöðluðu formi kröfu sem óskað var eftir að fyllt yrði út. Sérstaklega var tekið fram að bætur yrðu greiddar inn á bankareikninga fólksins en óheimilt væri að greiða inn á reikning þriðja aðila.

Því var svarað með því að lögmannsstofan myndi ekki fylla út formið og áréttað að allar reikningsupplýsingar væru í kröfubréfinu. Flugfélagið ítrekaði fyrra svar sitt og óskaði þar að auki eftir afriti af umboði fólksins til lögmannsins til að taka við greiðslunni. Í dómnum segir að frekari samskipti hafi ekki átt sér stað fyrr en flugfélaginu var stefnt.

Í dómnum segir að samkvæmt samskiptum lögmanns fólksins og lögmanns flugfélagsins hafi flugfélagið ekki gert athugasemd við bótakröfuna sem slíka en sagst ekki hafa fengið nægilegar upplýsingar til að upfylla hana. Engin viðbrögð hafi borist við síðara svari flugfélagsins og því hefði það ekki enn fengið að sjá umboð lögmanns mannsins og konunnar til að taka við greiðslu fyrir þeirra hönd. Vegna þessa upplýsingaskorts taldi flugfélagið sér ekki skylt að greiða vexti af bótunum.

Samt sem áður bauðst flugfélagið til að greiða vexti gegn því að málið yrði fellt niður án kostnaðar. Lögmaður fólksins tók því boði en gerði þó kröfu um tæplega 100.000 krónur í málskostnað. Hann taldi sig ekki þurfa að framvísa neinu umboði en þegar þessi samskipti áttu sér stað átti að þingfesta málið fyrir dómi daginn eftir. Lögmaður fólksins taldi það liggja í augum uppi að hann hefði ekki lagt fram stefnu fyrir dómi án þess að hafa til þess umboð. Lögmaður flugfélagsins ítrekaði beiðni sína um að lögmaður fólksins myndi framvísa umboði til að taka við greiðslu bótanna og þar sem aldrei hefði þurft að koma til málskotnaðar ætti flugfélagið ekki að þurfa að greiða hann.

Umboðinu loks framvísað

Í dómnum kemur fram að málið hafi verið þingfest í nóvember á síðasta ári og þinghald farið fram í janúar síðastliðnum. Í þinghaldinu lagði lögmaður mannsins og konunnar loks fram umboð frá þeim sem kvað á um heimild hans til að taka við greiðslu fyrir þeirra hönd. Umboðið var dagsett í mars 2022. Um 10 dögum eftir þinghaldið greiddi flugfélagið tæpar 60.000 krónur til mannsins og konunnar hvors um sig inn á fjárvörslureikning lögmannstofunnar.

Málarekstrinum var hins vegar haldið til streitu. Í málflutningi lögmanns mannsins og konunnar kom fram að þeim hefði ekki borið nein skylda til að fylla út staðlaða formið sem flugfélagið fór fram á að yrði fyllt út. Með undirritun þess hefðu þau undirgengist íþyngjandi skilmála og afsalað sér margvíslegum réttindum. Samkvæmt reglugerð nægi að tilgreina þann reikning sem greiða eigi bæturnar inn á. Þar af leiðandi ætti fólkið rétt á dráttarvöxtum.

Lögmaður flugfélagsins stóð fast á því að því bæri engin skylda til að greiða dráttarvexti í ljósi þess að aldrei hefði borist umboð frá lögmanni fólksins til að taka við greiðslu fyrir þeirra hönd. Samkvæmt lögum verði lögmenn að framvísa umboði til að taka við slíkum greiðslum. Þess vegna hafi ekki verið hægt að bera við vanefndum og krefjast greiðslu dráttarvaxta í ljósi viðurkenningu flugfélagsins frá upphafi á skyldu sinni til að greiða staðlaðar bætur. Þar af leiðandi fór hann fram á að maðurinn og konan yrðu dæmd til að greiða málskostnað.

Engu svarað og málið því tapað

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness segir að af gögnum málsins megi ráða að beiðni flugfélagsins um að umboði um heimild lögmannsins til að taka við greiðslum fyrir hönd mannsins og konunnar hafi ekki verið svarað. Dómurinn féllst ekki á það að krafa flugfélagsins um að fólkið fyllti út staðlað form leysti þau undan sinni ábyrgð þar sem einfalt hefði verið að útskýra fyrir flugfélaginu að þau vildu ekki undirgangast skilmála formins.

Fólkinu hefði verið í lófa lagið að framvísa reikningsnúmerum sínum eða umboði til handa lögmanninum til að taka við greiðslu bótanna. Reglugerðir standi ekki í vegi fyrir því að flugrekandi fari fram á að öðru hvoru þessa verði framvísað.

Héraðsdómur tók undir það með lögmanni flugfélagsins að maðurinn og konan bæru alla ábyrgð á þeim drætti sem varð á greiðslu bótanna. Þar af leiðandi væri ekki hægt að gera kröfu um dráttarvexti á grundvelli þess að um vanefndir af hálfu flugfélagsins hafi verið að ræða. Flugfélagið hefði þegar uppfyllt skyldu sína með því að greiða þeim bætur eftir að margumbeðnu umboði til handa lögmanninum var loks framvísað tæpum tveimur árum eftir upphaf málsins.

Flugfélagið var því sýknað og maðurinn og konan dæmd til að greiða því 350.000 krónur í málskostnað en eins og áður kom fram greiddi flugfélagið því hvoru um sig tæpar 60.000 krónur í bætur vegna tafanna sem urðu á flugi þeirra.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ákæran í stóra fíkniefnamálinu: Afi og amma geymdu efnin heima hjá sér og seðlabúnt voru flutt á bifreiðaverkstæði í Auðbrekku

Ákæran í stóra fíkniefnamálinu: Afi og amma geymdu efnin heima hjá sér og seðlabúnt voru flutt á bifreiðaverkstæði í Auðbrekku
Fréttir
Í gær

Hafa borið kennsl á líkin í ferðatöskunum – 34 ára gamall maður ákærður fyrir ódæðið

Hafa borið kennsl á líkin í ferðatöskunum – 34 ára gamall maður ákærður fyrir ódæðið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslendingur dæmdur í þriggja mánaða fangelsi í Danmörku fyrir að kýla unnustu sína margsinnis á bílastæði

Íslendingur dæmdur í þriggja mánaða fangelsi í Danmörku fyrir að kýla unnustu sína margsinnis á bílastæði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gangandi fólk kemst ekki lengur eftir gangstéttum í Norðurmýri – Bílastæðavandinn mikill

Gangandi fólk kemst ekki lengur eftir gangstéttum í Norðurmýri – Bílastæðavandinn mikill
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Líkamsleifar tveggja manna í ferðatöskum vekja óhug í Bretlandi – Scotland Yard stýrir leit að hinum grunuðu

Líkamsleifar tveggja manna í ferðatöskum vekja óhug í Bretlandi – Scotland Yard stýrir leit að hinum grunuðu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hlaut lífstíðarfangelsi fyrir ráðabrugg um að nauðga og drepa eina skærustu sjónvarpsstjörnu Breta

Hlaut lífstíðarfangelsi fyrir ráðabrugg um að nauðga og drepa eina skærustu sjónvarpsstjörnu Breta