fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fréttir

Þetta gæti gerst ef gýs í Öskju: „Gekk á með þrumum og eldingum og menn sáu vart handa sinna skil“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 31. mars 2024 10:30

Víti, fremst á myndinni, og Öskjuvatn/Wikimedia

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ýmislegt bendir til þess að eldstöðin Askja sé farin að búa sig undir eldgos. Í vikunni varð skjálftahrina í norðvesturhluta Öskju og mældust um 30 skjálftar á nokkrum klukkustundum á mánudagsmorgun.

Ármann Höskuldsson, einn af okkar fremstu eldfjallafræðingum, ræddi málið við Morgunblaðið í gær þar sem hann sagði að aðdragandinn að næsta eldgosi í Ösku hafi verið langur og að skýr merki væru um að þar sé eitthvað á seyði sem að lokum leiðir til eldgoss.

„Við erum náttúrulega búin að vera að bíða eftir henni. Hún er búin að vera að þenja sig í raun frá 2012 því þá bræddi hún af sér ís um hávetur, sem er nú eiginlega ekki mögulegt nema að þú bætir hita út í vatnið,“ sagði Ármann meðal annars.

Kraftmikla gosið 1875

Askja hefur bært á sér áður og á 20. öldinni urðu þar alls átta eldgos sem þó voru tiltölulega smávægileg. En árið 1875 varð þar kraftmikið öskugos sem hafði mikil áhrif á líf fólks á Austurlandi og varpa frásagnir af gosinu ljósi á mögulega sviðsmynd ef til eldgoss kemur.

Á vefnum eldgos.is kemur fram að gosið 1875 hafi átt sér nokkurn aðdraganda.

„Árið 1874 í febrúar og svo aftur í desember finnast jarðskjálftar á Norðausturlandi.  Gos hefst svo 3. janúar 1875.  Til að byrja með verða nokkur blandgos , líkast til meinlaus enda langt frá byggð.  Kvöldið 28. mars verður svo fjandinn laus ef svo má segja. Þá verður svokallað plínískt sprengigos í Öskju. Gengur það yfir í tveimur stuttum en gífurlega kröftugum lotum, sú fyrri stóð í 1-2 klukkustundir og sú seinni, morguninn eftir, stóð í nokkra tíma og var mun öflugri.“

Í umfjöllun um gosið kemur fram að ógnvænlegur gosmökkur hafi lagst yfir Austurland frá Héraði til Berufjarðar. „Á Jökuldal mældist vikurlagið allt að 20 cm þykkt eftir lætin.  Gekk á með þrumum og eldingum og menn sáu vart handa sinna skil.  Vikurmolar á stærð við tennisbolta voru enn heitir þegar þeir féllu, tugum kílómetra frá eldstöðinni.“

Hafði gosið þau áhrif að stór hópur fólks yfirgaf Austfirði og flutti til Vesturheims.

Kolsvartur reykjarmökkur að kvöldi páskadags

Tíminn rifjaði svo eldgosið upp árið 1975, í tilefni af því að þá var öld liðin frá því að gosið hófst. Í upprifjuninni segir að jarðhræringar hafi orðið 1874 sem síðan náðu hámarki 2. janúar 1875.

„Daginn eftir sást úr Mývatnssveit, að eldur gaus upp í suðri, en reykjarmökkur hafði sézt áður. Um miðjan febrúar gerðu Mývetningar út leiðangur til Dyngjufjalla og komust inn í Öskju þann 16. Þá voru miklir leirhverir að verki í suðausturhorni öskjunnar og þeyttu „grjóti og leirleðju fleiri hundruð feta í loft upp“. Vatn rann úr hverunum og myndaði litla tjörn í „10-12 dagslátta“ sigkatli skammt þar frá. Má líklega telja, að þarna hafi orðið eins konar sprengigos.“

Ekki bar til mikilla tíðinda fyrr en um páska, en um klukkan 9 að kvöldi páskadags þann 28. mars sáu íbúar á Jökuldal að kolsvartur öskumökkur reis upp frá Dyngjufjöllum.

„Þar með hófst eitt hið mesta öskugos, sem orðið hefur á Íslandi síðan það byggðist. Gosið fór ekki að færast verulega í aukana fyrr en aðfaranótt hins 29. Á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal byrjaði öskufall kl. hálf fjögur, og féll þá fíngerð aska. Klukkutíma síðar birti nokkuð, en aftur syrti að með ferlegu vikurfalli og varð svo koldimmt, að ekki mátti greina hvíta pappírsörk í hendi. Lauk þessu öskufalli um hádegi og var gjóskulagið á Skjöldólfsstöðum orðið 20 cm þykkt. Var miðhluti Austurlands sem gulgrá eyðimörk yfir að líta og tók af um skeið alla byggð á efri Jökuldal og miklum hluta Jökuldalsheiðar. Flúðu bændur til Vopnafjarðar og annarra nálægra héraða, og sumir þeirra síðar til Ameríku.“

Í upprifjun Tímans var bent á að megnið af gjóskunni hafi komið upp á aðeins átta klukkustundum. Til að byrja með hafi verið talið að aðalgígurinn í gosinu væri Víti en öllu líklegra sé að gjóskan hafi komið upp um sprungu eða röð af gígum sem nú eru á botni Öskjuvatns. Öskjuvatn, sem er næstdýpsta stöðuvatn landsins, varð einmitt til í gosinu mikla árið 1875 þegar land seig mikið og askjan fylltist af vatni á árunum eftir gosið.

Hraungos líklegra en öskugos

Hamfarirnar í Öskju árið 1875 hafa ekki endurtekið sig þó gosið hafi nokkrum sinnum, síðast árið 1961. Þá var um að ræða hraungos sem stóð yfir í um sex vikur og áhrifasvæði þess var lítið.

En ef til eldgoss kemur, hvort er líklegra að komi til hraungoss eða öskugoss? Þessari spurningu svaraði Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2 í fyrrasumar eftir að þjóðgarðsverðir urðu þess varir að vatnið í gígnum Víti hafði hitnað frá fyrri mælingum.

„Hraungos er algengara og því líklegra. Ef þetta verður hraungos þá er mjög ólíklegt að það hafi áhrif á nokkurn í byggð eða flugumferð.“

Eins og Ármann benti á í Morgunblaðinu í gær gæti þó orðið sprengigos. Benti hann á að í Öskju sé kvika sem er léttari en önnur og fari sú kvika af stað verði sprengigos á svæðinu.

„Ef eitthvað svoleiðis fer af stað þá verður náttúrulega sprengigos, en hvort það verður lítið eða stórt, það vitum við ekki.“ Ármann benti þó á að óvissan sé talsverð enda Askja öðruvísi eldfjall en við höfum þurft að glíma við.

„Af því að þú ert kominn með þessa miklu sprungu sem myndar öskjuna þá geturðu verið að sjá mismunandi hluti eftir því hvort þú ert inni í öskjunni eða fyrir utan. Svo náttúrlega bætir ekki úr skák að við erum með heilt stöðuvatn þarna inni í öskjunni og það eru engir mælar þar á botninum. Þannig að við vitum í rauninni ekkert hvað gerist á botninum í Öskju.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt