Samkvæmt áreiðanlegum og staðfestum heimildum innan úr lögreglunni var framið rán í umdæmi lögreglustöðvar 3, sem nær yfir Kópavog og Breiðholt, í gærmorgun. Var brotist inn í verðmætaflutningabíl við Hamraborg og verðmæti tekin úr honum.
Liggur fyrir að tveir starfsmenn, bílstjóri og farþegi í bílnum, voru teknir í skýrslutöku lögreglu í gær vegna málsins. Aðrar upplýsingar liggja ekki fyrir sem stendur.
Ekki hefur náðst samband við tengiliði lögreglustöðvar 3 í gærkvöld eða í morgun til að afla frekari upplýsinga um málið.
Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segist ekki geta tjáð sig um málið í augnablikinu.
„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar tveggja þjófa, sem brutust inn í bifreið í Hamraborg í Kópavogi á tíunda tímanum í gærmorgun og höfðu á brott með sér verulega fjármuni.
Þjófarnir voru á dökkgráum Toyota Yaris, en á bifreiðinni voru tvær mismunandi númeraplötur, þ.e. NMA 87 að aftan og SLD 43 að framan en báðum þessum skráningarnúmerum hafði verið stolið af öðrum ökutækjum. Lýst var eftir bifreiðinni í gær, en hún er ófundin.“
Beðist er velvirðingar á missögnum í fyrri útgáfu fréttarinnar. Fréttin hefur verið leiðrétt.