DV greindi fyrst fjölmiðla frá málinu í morgun og sagði frá því að tveir starfsmenn, bílstjóri og farþegi í bílnum, hefðu verið teknir í skýrslutöku vegna málsins. Lögregla lýsti í morgun eftir dökkgrárri Toyota Yaris-bifreið sem talin er hafa verið notuð við verknaðinn.
Vísir greindi svo frá því í hádeginu að þjófnaðurinn virðist hafa verið þaulskipulagður. Eru mennirnir sem stálu peningunum, 20 til 30 milljónum króna að sögn, sagðir hafa bakkað upp að bíl Öryggismiðstöðvarinnar í Hamraborg og snarhemlað áður en þeir fóru út og brutu afturrúðu bifreiðarinnar. Úr aftursætinu tóku þeir tvær töskur sem voru fullar peningum.
Um var að ræða peningaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar og segir í frétt Vísis að þjófnaðurinn hafi tekið mjög stutta stund.
Þess er getið að starfsmenn Öryggismiðstöðvarinnar hafi verið inni á veitingastaðnum Catalinu að sækja peninga úr spilakössum en fleiri spilasalir eru í nágrenninu, til dæmis í Vídeómarkaðnum.
DV reyndi að ná tali af Heimi Ríkharðssyni, lögreglufulltrúa á lögreglustöð 3 í Kópavogi, vegna málsins í morgun en án árangurs. Í samtali við mbl.is í hádeginu sagði hann lögreglu hafa fengið óstaðfestar upplýsingar um að upphæðin sem þjófarnir stálu hafi verið á bilinu 20 til 30 milljónir króna.