Í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að tveir karlar og ein kona hafi verið úrskurðuð í áframhaldandi tveggja vikna gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Fólkið var handtekið í byrjun mánaðarins í kjölfar umfangsmikilla aðgerða, en tilefni þeirra var rökstuddur grunur um skipulagða brotastarfsemi, sem talin er varða mansal, skjalafals, peningaþvætti, brot á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga.
Umræddar aðgerðir vörðuðu rannsókn á starfsemi ýmissa fyrirtækja meðal annars Vy-þrifa, og veitingastaðanna Pho-Vietnam og Wok-on. Davíð Viðarson sem áður hét Quang Lé er sagður vera meintur höfuðpaur í málinu en hann ásamt fleiri aðilum var handtekinn í byrjun mánaðarins í afar umfangsmiklum aðgerðum lögreglu. Fram kom í fréttum vegna aðgerðanna að rannsóknin hefði staðið yfir í töluverðan tíma. Ekki kemur fram í tilkynningunni hvort Davíð er meðal þeirra sem úrskurðuð voru í áframhaldandi gæsluvarðhald.