Ástríður Kristín Bjarnadóttir, sem kallar sig Ástu Bjarnadóttur, sat í 12 vikur í gæsluvarðhaldi síðastliðið sumar vegna rannsóknar á meintum fjársvikabrotum hennar gagnvart 11 karlmönnum upp á 25 milljónir króna. Eins og margoft hefur komið fram er hún grunuð um margfalt fleiri brot. En rannsókn brotanna gegn mönnunum 11 lauk síðastliðið haust og var málið þá sent til ákærusviðs Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Síðan er liðið um hálft ár en Ásta hefur enn ekki verið ákærð. Verjandi hennar, Steinbergur Finnbogason, segir í stuttu spjalli við DV að hann hafi lítið heyrt um málið frá því Ásta var látin laus í lok síðasta sumars og ekkert í langan tíma. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um skjólstæðing sinn á þessu stigi málsins.
Eins og greint var frá í fréttum í fyrra hafa hátt í 400 karlmenn lagt yfir 200 milljónir inn á bankareikninga Ástu á undanförnum árum. Einnig var margsinnis greint frá því að hún stríðir við spilafíkn á mjög háu stigi. Í fyrstu frétt DV af málinu síðasta sumar segir:
„Konan hefur sett sig í samband við karlmenn á einkamálasíðum og óskað eftir peningalánum. Hún hefur lofað að greiða til baka en ekki staðið við það. Mörg hinna meintu brota eru þó mun alvarlegri en þetta og er konan meðal annars grunuð um að hafa svikið út fé úr parkinson-sjúklingi sem þjáðist af lyfjaeitrun. Á því tímabili sem konan var að fá lán hjá honum var hann með ofskynjanir eftir lyfjaeitrun. Hann segir að þegar hann gat ekki lesið skilaboð frá konunni hafi hún hringt í hann og þrýst á að hann samþykkti með rafrænum skilríkjum. Þegar hann var kominn á sjúkrahús tók dóttir hans eftir því að reikningur hans var 1,4 milljónir í mínus og búið var að taka lán í hans nafni hjá AUR upp á 700 þúsund krónur.
Lögreglan hafði afskipti af konunni í febrúar en það leiddi ekki til þess að hún léti af háttseminni og margir karlmenn hafa kært hana fyrir fjársvik síðan þá. Fjórir mannanna sem konan er grunuð um að hafa svikið fé út úr eru með þroskaskerðingu.
Einn þolenda meintra svika konunnar hafði samband við Íslandsbanka vegna þess að tveir reikningar höfðu verið stofnaðir í hans nafni og yfirdráttarheimildin upp á 2,4 milljónir hafi verið fullnýtt. Viðkomandi var ekki í viðskiptum við bankann og sagði fjármálagerningana ekki hafa verið hans en upphæðin var millifærð á reikning í eigu konunnar. Bæði tilvik voru gerð í gegnum sjálfvirkan lánavef bankanna.“
DV greindi frá því að þann 17. október 2023 að fleiri mál væru til rannsóknar hjá lögreglu en þau mál sem rannsókn lauk á um það leyti. Þetta upplýsti María Káradóttir, aðstoðarsaksóknari hjá ákærusviði Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. DV hafði næst samband við Maríu vegna málsins í byrjun þessa árs og sagði hún þá að ekkert væri að frétta af málinu. DV sendi síðast fyrirspurn um málið til Maríu þann 19. mars síðastliðinn en þeirri fyrirspurn hefur ekki verið svarað.
Rétt er að halda því til haga að ástæðan fyrir löngu gæsluvarðhaldi Ástu síðasta sumar var sú að talin var mikil hætta á því að hún héldi áfram að brjóta af sér ef hún gengi laus. En hún losnaði úr gæsluvarðhaldi í sumarlok. Ekki má halda sakborningi lengur í gæsluvarðhaldi en 12 vikur án þess að birta honum ákæru. Liðið er meira en ár síðan lögregla hafði fyrst afskipti af Ástu vegna þessara mála og hún var fyrst úrskurðuð í gæsluvarðhald 2. júní 2023. Í gæsluvarðhaldsúrskurðinum sagði að yfirgnæfandi líkur væru á því að hún héldi brotum áfram ef hún gengi laus:
„Það er mat lögreglustjóra að kærða sé undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við og miðað við brotaferil kærðu að undanförnu er það jafnframt mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærða muni halda áfram brotastarfsemi fari hún frjáls ferða sinna. Hún sé haldin alvarlegri spilafíkn og virðist ganga langt til þess að fá að blekkja einstaklinga til að greiða sér fjármuni eða svíkja út fjármuni með blekkingum og hefur haldið ítrekað áfram þrátt fyrir að hafa verið handtekinn í febrúar sl.“
Móðir þroskaskerts manns sem Ásta er grunuð um að hafa féflétt um yfir 1,4 milljónir króna er afar ósátt við að ekki hafi verið birt ákæra í málinu. Meint brot áttu sér stað þegar maðurinn var mjög viðkvæmur eftir andlát í fjölskyldu hans. Ásta er talin hafa komist yfir aðgang að reikningum hans og millifært þaðan yfir á eigin reikning auk þess að stofna til yfirdráttar í hans nafni í öðrum banka en viðskiptabanka hans og stofna til AUR láns í nafni hans. Fjármunina nýtti hún fyrir sjálfa sig og að líkindum fóru þeir allir í fjárhættuspil.
„Það var dapurt að sjá, þegar ég var að færa skattaskýrslurnar okkar, þennan háa yfirdrátt og lán í banka sem hann er ekki í viðskiptum við, fyrir svo utan að ég borgaði upp AUR-lánið, 300 þúsund krónur,“ segir konan í samtali við DV. Hún er orðin vondauf um að málið verði nokkurn tíma gert upp og sonur hennar upplifi eitthvert réttlæti eftir að svo freklega var brotið á honum.
DV hefur vísbendingar um að Ásta hafi átt mjög erfitt uppdráttar fjárhagslega og félagslega eftir að gæsluvarðhaldi hennar lauk í fyrra. Hún hefur í allnokkur skipti á undanförnum vikum og mánuðum boðið til sölu ýmis verðmæti, að minnsta kosti þrjá snjallsíma, einn iPad og eitt snjallsjónvarp.
DV hefur ekki upplýsingar um hvaðan þessir hlutir eru upprunnir en hefur þó vísbendingar um að þeir séu í eigu Ástu en ekki þýfi.
DV hefur einnig borist til eyrna að Ásta hafi sýnt vilja til að leita sér lækninga við spilafíkn sinni en hún hafi ekki fundið meðferðarúrræði við hæfi. Nánar verður fjallað um þá hlið málsins síðar.