Kona var sakfelld í gær í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa sparkað ítrekað í lögreglumann, snúið upp á handlegg hans og hóta honum margsinnis lífláti sem og fjölskyldu hans.
Samkvæmt dómnum var konan ákærð í tveimur liðum.
Í honum segir að utandyra að kvöldi laugardagsins 19. nóvember 2022, í Reykjavík, hafi hún ítrekað hótað lögreglumanninum og fjölskyldu hans líkamsmeiðingum og lífláti og að auki sparkað ítrekað í hann og snúið upp á hægri handlegg hans með þeim afleiðingum að hann hlaut mar á hægri framhandlegg.
Í seinni lið ákærunnar var konan ákærð fyrir að sparka í hægra læri lögreglumannsins utandyra og aftur þegar komið var á lögreglustöðina við Hverfisgötu auk þess að hóta honum lífláti enn á ný.
Konan játaði brot sín skýlaust en fram að þessu hafði hún ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi. Í ljósi þess og játningar hennar þótti hæfilegt að dæma hana í 90 daga skilorðsbundið fangelsi.