„Dópsalar græða á tá og fingri, þjófnuðum fjölgar, en fyrst og fremst verða þessir veiku einstaklingar, sem gekk svo vel hjá mér að meðhöndla, aftur fárveikir og búa við stöðuga vanlíðan. Auk þess deyja tugir þeirra á hverju ári, ungir menn yfirleitt, af völdum sjúkdóms síns,“ segir Árni í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
Þar gerir hann ópíóðavandann að umtalsefni og segir óásættanlegt að íslenskt samfélag hafi ekki gert meira fyrir fólk sem er fárveikt af fíkn.
Hann vísar í viðtal RÚV við heilbrigðisráðherra í vikunni þar sem hann viðurkenndi að vitað hefði verið af þessum vanda um langt skeið og hann ræddur, en lítið hefði verið gert.
„En nú skyldi bretta upp ermar og stofna nefndir og ráð sérfræðinga og jafnvel koma á fót neyslurými fyrir þetta fólk. En hver ætlar að útvega þessum hópi efnið, sem er þeim lífsnauðsynlegt? Um það talaði ekki ráðherrann. Það er einmitt efnið, sem þetta fólk þarfnast – í hæfilegum skömmtum. Ég hef talsverða reynslu af að annast þessa skjólstæðinga mína með prýðisgóðum árangri,“ segir Árni Tómas og bætir við að spurningin sem brennur á fíklunum, ættingjum þeirra og vinum sé sú hvar þeir eiga að fá efnið.
Sjá einnig: Ráðist á Árna Tómas lækni: „Það komu tveir þreknir gaurar til mín á stofuna“
„Á meðan ekki er talað um það er allt annað froðusnakk. Það er reynt að skjóta sér undan þessari óþægilegu spurningu; hver ætlar að hengja bjölluna á köttinn? Ekki ég sagði …, ekki ég sagði … og svo koll af kolli. Ætlar kannski ráðherrann að hengja bjölluna á köttinn? Hann hefði sagt það í löngu viðtali í dag ef hann hefði ætlað sér það.“
Árni segir að hvers kyns skýli og neyslurými geti verið góð fyrir sinn hatt, en þau leysi ekki aðalmálið. Þau gefi ráðherrum mildari ásýnd en fíklum ekki betri líðan.
„Það er svo vísað á hinn ágæta Vog, sem ekki hefur ráðið við þennan vanda, hvað þá heilsugæslan, sem hefur ekki viljað sjá svona fólk á biðstofum sínum. Og svo vísar ráðherra til lyfjafræðings í Keflavík, sem hefur oft sinnt skjólstæðingum mínum. En hún skrifar auðvitað ekki út lyf, að nefna hin ágætu störf hennar er aðeins aumt yfirklór eins og flest annað sem ráðherrann nefnir. Hann leggst á bæn á hverju kvöldi og biður þess að hann losni við þetta erfiða mál og að allir haldi að hann sé bara góður KR-ingur með samviskuna í lagi.“
Loforð um að þessi mál verði komin í betra lag með haustinu segir hann að geri lítið fyrir fíkla.
„Það eru um sex mánuðir a.m.k. (og enginn trúir honum). Sex mánuðir eru langur tími fyrir fíkil án efna alveg eins og sykursjúkan án insúlíns.“
Árni Tómas klykkir svo út með þessum orðum:
„Og svo er ráðist á mig (ég er ekki að tala um handrukkarana sem misþyrmdu mér) af Ölmu landlækni (miklu verra) og hún neyðir mig til að hætta allri aðstoð við þetta mikið veika fólk. Þá eru nú handrukkararnir skárri.“