fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Flokkur fólksins vill setja Creditinfo stólinn fyrir dyrnar

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 21. mars 2024 10:30

Þingmenn Flokks fólksins

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frumvarp þingflokks Flokks fólksins um breytingum á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga verður tekið til fyrstu umræðu á Alþingi í dag. Samkvæmt frumvarpinu verður vinnsla upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga, þar með talið vanskilaskráning og gerð lánhæfismats, í því skyni að miðla þeim til annarra, bönnuð. Aðeins eitt fyrirtæki hefur leyfi til slíkrar starfsemi hér á landi, Creditinfo. Verði frumvarpið að veruleika yrði því fótunum kippt undan þessum þætti í starfsemi fyrirtækisins.

Þessi þáttur starfsemi Creditinfo hefur verið umdeildur enda ljóst að það hefur gert lánshæfismat fyrir stóran hluta fullorðinna einstaklinga á landinu. Lánshæfismat fyrirtækisins hefur mikið um það að segja hvort fólk á möguleika að fá lán og áhrif fyrirtækisins á líf landsmanna eru því mikil.

Talsverðar deilur vakti á síðasta ári þegar fyrirtækið gerði breytingar á vinnslu lánshæfismatsins. Eldri upplýsingar en áður voru nýttar við gerð þess sem hafði þær afleiðingar að dæmi voru um fólk, sem áður hafði verið í vanskilum en náð að vinna sig út úr þeim og fá betra lánshæfismat, fékk lægra mat á svo til einni nóttu. Þau munu þó hafa verið fleiri sem fengu hærra lánshæfismat eftir þessar breytingar.

Úr klóm fátæktarinnar

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að þetta sé í fjórða sinn sem það sé lagt fram.

Enn fremur segir að aðgangur að lánsfjármagni sé grunnforsenda þess að fólk geti komið sér úr klóm fátæktarinnar, af leigumarkaði og í eigin fasteign. Þannig geti fólk komist í þá aðstöðu að greiða afborganir sem í mörgum tilfellum séu lægri en húsaleiga. Það eigi þó ekki allir jafn greiðan aðgang að lánsfjármagni.

Neytendur þurfi að standast lánshæfis- og greiðslumat áður en lánastofnanir veiti þeim lán. Greiðslumatið fari þannig fram að lagt sé mat á reglulegar tekjur og fyrirhuguð útgjöld lántakanda og áætlað hver greiðslugeta hans sé. Lánshæfismatið sé m.a. byggt á viðskiptasögu aðila á milli eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust.

Sífellt berist fréttir af fólki sem geti ekki fengið lán frá lánastofnunum vegna niðurstöðu lánshæfismats. Margir fái synjun um fyrirgreiðslu þrátt fyrir góða greiðslugetu og án þess að lán séu í vanskilum. Fólk fái gjarnan þá skýringu að vegna þess að þriðji aðili hafi gefið því of lága einkunn geti lánastofnunin ekki veitt því lán. Slík einkunnagjöf sé svokallað persónusnið sem byggi á sjálfvirkri vinnslu persónuupplýsinga. Slíkt persónusnið eigi ekki að leiða til sjálfvirkrar ákvarðanatöku. Því megi lánastofnanir ekki hafna lánveitingu án þess að taka tillit til annarra atriða. Engu að síður hafi slík persónusnið mikið vægi við mat á lánshæfi einstaklings.

Ótækt að fá ekki lán fyrir að hafa einhvern tímann verið í vanskilum

Einnig segir í greinargerðinni að það sé með öllu ótækt að neytendur geti ekki fengið lán vegna þess að þeir hafi á einhverju tímabili verið með lán í vanskilum. Á því geti verið ýmsar skýringar. Til að mynda hafi í efnahagshruninu haustið 2008 skuldir heimilanna hækkað verulega. Það hafi þó ekki haft áhrif á greiðslugetu fólks í mörgum tilvikum. Íslendingar ættu að þekkja það að vanskil séu ekki endilega viðkomandi einstaklingi að kenna og ættu því ekki að elta fólk til grafar löngu eftir afskráningu.

Vinnsla á fjárhagsupplýsingum einstaklinga í því skyni að miðla þeim til annarra falli undir lög um persónuvernd. Með frumvarpinu sé lagt til að slík vinnsla verði bönnuð. Þannig verði girt fyrir að þriðji aðili geti haft úrslitaáhrif á möguleika neytenda til að taka lán.

Aðeins eitt fyrirtæki hafi nú leyfi til slíkrar vinnslu, Creditinfo Lánstraust hf. Verði frumvarpið að lögum þurfi fyrirtækið að láta af þeirri starfsemi sinni sem snúi að vinnslu fjárhagsupplýsinga um einstaklinga í því skyni að miðla upplýsingum til annarra. Fyrirtækið gæti því ekki lengur miðlað upplýsingum úr vanskilaskrá eða eigin lánshæfismati.

Eftir sem áður þurfi lánastofnanir að uppfylla kröfur laga um framkvæmd lánshæfis- og greiðslumats. Neytendur geti þá treyst því að lánveitandi sjálfur leggi mat á lánshæfi þeirra í stað þess að byggt sé á gögnum frá þriðja aðila.

Það sé von flutningsmanna að í kjölfarið fækki þeim tilfellum þar sem neytendum sé vísað á dyr vegna niðurstöðu lánshæfismats sem byggist á upplýsingum sem gefi ekki rétta mynd af fjárhagsstöðu þeirra.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás
Fréttir
Í gær

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“