fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fréttir

Bankasýslan kemur af fjöllum – „Það var því miður ekki gert“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 19. mars 2024 08:12

Lárus Blöndal, fyrrverandi stjórnarformaður Bankasýslu ríksins og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón G. Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, segir að stofnuninni hafi verið alls ókunnugt um yfirvofandi kaup Landsbankans á 100% hlutafé í TM sem greint var frá um helgina.

Þetta kemur fram í bréfi Bankasýslunnar (BR) til fjármála- og efnahagsráðherra og birt var á vef Bankasýslu ríkisins í gærkvöldi.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra hafði óskað eftir svörum frá Bankasýslunni vegna málsins en á laugardag var upplýst að Kvika banki hafi ákveðið að taka tilboði Landsbankans í allt hlutafé TM. Var kaupverð samkvæmt tilkynningu 28,6 milljarðar króna og átti Landsbankinn að greiða kaupverðið með reiðufé.

„BR upplýsir fjármála og efnahagsráðherra hér með um að stofnuninni var alls ókunnugt um ofangreind viðskipti og tekur undir þau rök og þær áhyggjur sem fram koma í bréfi ráðherra. BR fékk ekki upplýsingar um fyrirætlanir Landsbankans að leggja fram skuldbindandi tilboð. Þá var stofnunin ekki upplýst um að skuldbindandi tilboð hafi verið lagt fram, heldur var einungis upplýst um þegar skuldbindandi tilboði var tekið um kl. 17 þann 17. mars síðastliðinn.“

Í bréfinu er þó tekið fram að þann 11. júlí 2023 hafi formaður bankaráðs Landsbankans upplýst Bankasýsluna um áhuga Landsbankans á að kaupa TM eftir að samrunaviðræðum við Íslandsbanka og Kviku var slitið.

„Stjórn BR var upplýst samdægurs um samskiptin á stjórnarfundi. Á þessum tíma var TM ekki í formlegu söluferli og formaður bankaráðs tilkynnti BR um að hún myndi halda stofnuninni upplýstri um framgang mála. Þann 20. júlí 2023 er BR upplýst um það að ekki hafi komist á formlegar viðræður milli Landsbankans og Kviku um kaup á TM. Til frekari upplýsinga þá átti BR reglulegan fund með bankaráði Landsbankans þann 16. nóvember sl. án þess að þetta hafi komið til umræðu, en formlegt söluferli TM hófst daginn eftir.“

Í bréfi Jóns til Þórdísar segir enn fremur að engar frekari upplýsingar hafi borist Bankasýslunni um málið en formaður bankaráðs Landsbankans telji sig þó hafa minnst á endurvakinn áhuga Landsbankans á að taka þátt í söluferlinu.

„Það á að hafa komið fram í óformlegu símtali til stjórnarformanns BR vegna launauppbótar starfsmanna í desember 2023, sem þegar hafði verið ákveðin. Engar formlegar upplýsingar hafa þó á nokkrum tímapunkti borist BR um þátttöku Landsbankans í söluferlinu. Þvert á móti taldi stjórn BR einsýnt að ekki yrði af viðskiptunum af hálfu Landsbankans í kjölfar viðtals við fjármála- og efnahagsráðherra þann 6. febrúar sl. Var sú afstaða ráðherra rædd á stjórnarfundi BR þann 8. febrúar sl. og bókað að ráðherra hugnaðist ekki að Landsbankinn kaupi TM.“

Í bréfinu kemur enn fremur fram að Bankasýslan hafi fundað með bankaráði Landsbankans í gær þar sem bankaráðið var spurt út í viðskiptin.

„Það er mat BR að Landsbankanum hafi borið að upplýsa um fyrrgreind viðskipti með skýrum og formlegum hætti skv. Samningi aðila frá desember 2010. Slíkt var því miður ekki gert. Það kom hins vegar fram ám fundinum með bankaráði að því hafi verið ljóst fyrrgreind afstaða ráðherra til kaupanna. BR hefur nú óskað eftir formlegri og ítarlegri greinargerð bankaráðs Landsbankans um ofangreind viðskipti. Þess var óskað að greinargerðin yrði lögð fram innan 7 daga. Þar til hún hefur verið lögð fram og metin, getur BR ekki tekið ákvarðanir um næstu skref.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri