Yfirvöld í New York fylki lögðu í vikunni hald á risastóran krókódíl sem hafði verið gæludýr í áratugi á heimili manns. Maðurinn segist ætla að berjast fyrir því að fá hann aftur.
Breska fréttastofan Sky News greinir frá þessu.
Krókódíllinn heitir Albert og var gæludýr manns sem heitir Tony Cavallaro. Albert er 3,4 metrar á lengd og vegur 340 kílógrömm. Albert er haldinn sjónleysi á báðum augum og er með mænuvandamál. Talið er að hann hafi verið á heimilinu í um þrjátíu ár, eða síðan einhvern tímann á tíunda áratug síðustu aldar.
Það voru starfsmenn umhverfisstofnunar New York fylkis sem haldlögðu Albert á heimili Tony í bænum Hamburg, sunnan við Buffalo borg í vesturhluta fylkisins, á miðvikudaginn þann 13. mars. Þar lá Albert í sundlaug.
Framan af hafði Tony leyfi fyrir að halda Albert en það leyfi rann út árið 2021. Þess vegna var farið í vörslusviptinguna. Í yfirlýsingu stofnunarinnar var eigandinn að ógna öryggi almennings með því að halda dýrið í leyfisleysi.
Að sögn stofnunarinnar leyfði Tony fólki, og þar á meðal börnum, að fara ofan í sundlaugina og svamla með Alberti.
„Það er alveg á hreinu að jafn vel þó að eigandinn væri með leyfi til að halda dýrið þá væri algerlega bannað að hleypa fólki í nálægð við það. Það væri næg ástæða til þess að ógilda leyfið,“ segir í yfirlýsingunni.
Tony sagðist heita því að fá Albert aftur til sín. Hann líti á Albert sem barnið sitt og segir að hann hafi aldrei skapað neina hættu.
„Ég er ekki hættulegur, ég er ekki að skapa hættu fyrir neina manneskju,“ sagði Tony.
Málið er enn þá á byrjunarstigi. Ekki hefur verið ákveðið hvort að Tony verði kærður til lögreglu vegna málsins.
Albert er kominn í hendur umsjónarmanns sem hefur leyfi til að halda stór skriðdýr. Hann verður þar þangað til að búið er að finna framtíðarheimili fyrir hann. Krókódílar geta náð allt að 70 ára aldri.