Yulia Navalnaya, ekkja stjórnarandstæðingsins Alexei Navalny sem drepinn var fyrir skemmstu, var á meðal mótmælenda við kjörstaði í forsetakosningunum í Rússlandi. Kosningarnar eru almennt taldar vera gervikosningar og úrslitum verði hagrætt þannig að Pútín vinni yfirburðasigur.
Mótmælin bera yfirskriftina „Hádegi gegn Pútín“ og eru skipulagðar af stuðningsfólki Navalny. En hann var myrtur þann 16. febrúar í fangelsi í Síberíu að undirlagi rússneskra stjórnvalda. Öðrum stjórnarandstæðingum sem eru á móti innrásinni í Úkraínu hefur verið meinuð þátttaka í kosningunum.
Þúsundir stuðningsmanna Navalny sem tóku þátt í hinum friðsömu mótmælum hugðust eyðileggja kjörseðil sinn með því að skrifa nafn Navalny á hann. Yulia mótmælti fyrir utan rússneska sendiráðið í Berlín í Þýskalandi þar sem kosning fór fram.