fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Fréttir

Borgin verslar fyrir hundruð þúsunda í búð sem er rekin úr bakgarði sviðsstjórans

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 16. mars 2024 09:10

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Reykjavíkurborg segir ekkert óeðlilegt við viðskipti borgarinnar við fyrirtæki sem tengist sviðstjóra þjónustu- og nýsköpunarsviðs borgarinnar nánum böndum og er rekið frá heimili hans. Þetta kemur fram í svari borgarinnar við fyrirspurn DV.

Um er að ræða litla lífstílsverslun sem er rekin af konu sviðsstjórans, Óskars J. Sandholt.  Verslunin er annars vegar rekin sem netverslun og hins vegar í bakhúsi á  heimili hjónanna. Bak við reksturinn er samlagsfélagið I ráðgjöf slf. sem Óskar stofnaði sjálfur á sínum tíma til að halda utan um ráðgjafarþjónustu sína.

Meðal viðskiptavina Óskars áður en kennitalan færðist yfir á konu hans, var Reykjavíkurborg en við eigendaskiptin hafði Óskar þegar starfað hjá borginni um nokkurra ára bil. Lén netverslunarinnar var skráð hjá ISNIC árið 2014, en á skráningarskírteini lénsins má sjá, í upplýsingum um tengilið, netfang Óskars.

Óskar er einn af æðstu embættismönnum borgarinnar þar sem hann fer með mikil völd og leiðir eitt stærsta fjárfestingarverkefni borgarinnar í þróun stafrænna innviða, en á árinu 2021 greindi Reykjavík frá að hafa tekið frá fjárheimildir til sviðs Þjónustu- og nýsköpunar (ÞON) upp á 10,3 milljarða á árunum 2021, 2022 og 2023, en sviðið er eitt af þremur kjarasviðum borgarinnar.

Gerviblóm og pappírspokar

Óskar hóf störf hjá Reykjavíkurborg árið 2012 sem skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu og rekstrar en í gegnum árin hefur borgin ítrekað átt í viðskiptum við verslun hans og eiginkonunnar.

Árið 2015 keypti borgin pappírspoka fyrir 14.450 kr. í versluninni. Ekki kemur fram á handskrifuðum reikningi hvaða starfsmaður sá um innkaupin en reikningur er aðeins merktur með upphafsstöfum. Kostnaðurinn var gjaldfærður á „móttökur“ og á bókhaldslykil fyrir risnu, gjafir, verðlaun o.fl.

Árið 2017 keypti borgin 5 gerviblóm með einingarverðið 2.411 kr. og 4 gerviblóm með einingaverðið 798 kr. Eins voru keyptir tveir speglar í viðarramma á 3.460 kr stykkið og 2 vasar af miðstærð á 6.040 kr. stykkið. Fyrir þetta greiddi borgin 42.479 kr. Tengiliður við borgina var móttökufulltrúi Reykjavíkurborgar sem heyrir til skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Kaupin voru gjaldfærð á rekstur stjórnsýsluhúsa sem risna, gafir, verðlaun o.fl

Seldi borginni útihúsgögn sem vekja furðu starfsmanna

Árið 2018 má sjá að borgin keypti sex sett af útihúsgögnum í svokölluðum bistro stíl. Fyrir þetta greiddi borgin einingaverðið 87.900 kr. en fékk 15 prósent afslátt. Á reikningi má lesa að viðskiptin áttu sér stað í gegnum starfsmann sem heyrði beint undir skrifstofu þjónustu og rekstrar, sem Óskar var yfir á þeim tíma.

Ári síðar var hægt að fá sambærilegt sett í versluninni en þá var einingaverðið 79.900 kr.

Samkvæmt opnu bókhaldi borgarinnar var kostnaðurinn gjaldfærður sem annar rekstrarkostnaður á rekstur Höfðatorgs, en þar er húsgögnin enn að finna á þaksvölum. Heimildir DV herma þó að húsgögnin hafi ekki verið endingarbetri en svo að nánast strax og þau voru afhent hafi þurft að ráðast í að gera þau upp.

Sambærileg garðhúsgögn má svo finna í garði Óskars á þessum tíma, á myndum sem birst hafa á samfélagsmiðlum. Athygli vekur að hvorki húsgögnin í Borgartúni eða í garði Óskars eru eins og þau á myndinni í netversluninni. Ekki er útilokað að annars konar húsgögn hafi verið til sölu þar en þau hafa þá ekki verið auglýst á samfélagsmiðlum verslunarinnar eða verið fangaðar af köngulóm internetsins (e. spiderbots). Heimildarmaður segir starfsmenn og verktaka gjarnan ræða um húsgögnin á háðslegum nótum og furði sig á veru þeirra í opinberri stofnun.

Sami starfsmaður borgarinnar, undirmaður Óskars, er skráður fyrir kaupum sem áttu sér svo stað snemma árs 2019, þegar Óskar var enn skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu og rekstrar. Þar keypti borgin eitt stykki af indverskum bedda fyrir 69.900 kr., teppi fyrir 19.900 kr. og tvo púða fyrir 9.800 kr.  Samtals nam þetta 99.600 kr. en af þessu fékk borgin 20 prósent afslátt og borgaði 79.680 kr. Í opnu bókhaldi borgarinnar eru viðskiptin gjaldfærð á skrifstofu sviðsstjóra ÞON, eða skrifstofu Óskars, á bókhaldslykil fyrir áhöld og búnað.

Hærra verð til Reykjavíkurborgar en annarra

Árið 2021 keypti borgin það sem skráð er sem vintage tjalddýna á einingaverð 40.242. Af þessu fékkst 35 prósent afsláttur og tekið var fram í reikningi að um hluta af stærra tilboðið væri að ræða sem hafi verið samþykkti í júní. Samtals voru greiddar 32.435 kr. Ekki liggur ljóst fyrir hvaða vöru um ræðir en á vefsíðu framleiðandans er ekki hægt að finna neina eiginlega dýnu í tjald, heldur vatnsheld teppi úr eins konar segldúk. Kostnaðurinn var bókaður á deild ÞON sem kallast þjónustuhönnun og umbreyting sem áhöld og búnaður.

Síðar sama ár, rétt fyrir árslok, keypti Reykjavíkurborg eitt sett af pullum til að setja á sæti úr vörubrettum. Pullurnar kostuðu samkvæmt reikningi 151.451 kr. en svo var veittur 35 prósent afsláttur svo borgin greiddi 122.070 kr. Sambærilegar pullur eru seldar í versluninni í dag á 94.900. Pullurnar eru seldar í hollenskri verslun, en kona Óskars er þaðan, og kosta þar settið í dag 290 evrur, eða um 44 þúsund krónur íslenskar krónur. Kostnaðurinn er bókaður á deild ÞON sem kallst rekstrarþjónusta sem áhöld og búnaður.

Bæði tilfellin frá 2021 eru á reikningi merkt á þann veg að þau hafi verið pöntuð af starfsmanni sem starfaði sem verkefnastjóri á skrifstofu þjónustu og reksturs, síðar ÞON, og starfaði þar náið með Óskari. Mættu þeir ítrekað saman á fundi nefnda og ráða borgarinnar til að kynna verkefni sviðsins. Téður starfsmaður lét af störfum haustið 2021, áður en að síðari salan fór fram.

Tengiliður á reikningi er annar starfsmaður borgarinnar, deildarstjóri sem fer með rekstur stjórnsýsluhúsa en deildin tilheyrir ÞON. ÞON var ekki eina sviðið sem skipti við verslunina það árið. Skóla- og frístundasvið keypti bakka fyrir gleraugu og bókina Lunar Living: Working with the magic of the moon cycles. Fyrir það greiddi sviðið 6.680 kr. Starfsmaður borgarinnar kvittar aðeins með upphafsstöfum og ekki liggur fyrir um hvern ræðir.

Áður en að I ráðgjöf slf. færðist til konu Óskars var hann sjálfur með rekstur á félaginu. Árið 2011 keypti Reykjavík ráðgjöf frá Óskari fyrir 1.078.045 kr. Tengiliður við borgina skv. reikningi er núverandi bæjarstjóri Mosfellsbæ, Regína Ástvaldsdóttir, en hún starfaði á þessum tíma sem skrifstofustjóri og staðgengill borgarstjóra. Ári síðar greiddi borgin 711.820 kr. fyrir ráðgjöf hans.

Segja ekkert athugavert við viðskiptin

Í svari Reykjavíkur segir um viðskiptin:

„Fyrirkomulag innkaupanna á ÞON var í samræmi við þær innkaupareglur Reykjavíkurborgar sem í gildi voru á hverjum tíma og voru innkaupin undir viðmiðunarfjárhæðum reglnanna. Gerður var samanburður meðal fyrirtækja til að gæta að hagkvæmni og tryggja jafnræði á markaði. Samanburðurinn var í tilfelli vörukaupanna framkvæmdur með tvenns konar hætti, annars vegar með rafrænum hætti þ.e. með því að heimsækja vefsíður ólíkra fyrirtækja sem bjóða upp á vörur fyrir skrifstofur og/eða heimili. Hins vegar með því að heimsækja viðkomandi verslanir, skoða vörurnar og meta verð á móti gæðum.

Í störfum sviðsstjóra þjónustu- og nýsköpunarsviðs hafa tengsl hans við eiganda I ráðgjafar slf. ávallt legið fyrir. Í öllum samtölum um kaup á vörum frá fyrirtækinu I Ráðgjöf slf. sem sviðsstjóri hefur haft vitneskju um hafa tengsl hans við fyrirtækið verið rakin.

Varðandi val á útihúsgögnum á svölum í Borgartúni og samanburð er vísað til framangreinds svars um innkaupin. Umrædd húsgögn eru enn í notkun á svölunum í dag.“

Þrátt fyrir ósk um að borgin sýndi fram á að samanburður milli valkosta hafi vissulega farið fram, svo sem með minnisblöðum eða gögnum um skrifleg samskipti þeirra sem ákvörðunina tóku, hefur slíku ekki verið vísað fram, en við ítrekun blaðamanns fékkst svarið:

„Vísa í fyrra svar þar sem fram kemur að kaupin voru vel undir viðmiðunarfjárhæðum og því ekki gerð sérstök krafa um skjölun gagna í tengslum við þau.“

Hvað segja lögin?

Ofangreind afstaða borgarinnar, sem kemur fram í svari lögfræðings ÞON, er athyglisverð þegar horft er til innkaupareglna Reykjavíkurborgar, en þar segir orðrétt um innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum:

„Við innkaup undir ofangreindum viðmiðunarfjárhæðum skal kaupandi ávallt gæta hagkvæmni og gera samanburð meðal sem flestra fyrirtækja. Slíkur samanburður skal jafnan gerður skriflega eða með rafrænni aðferð.“

Breyttar innkaupareglur tóku gildi í desember, en ofangreint ákvæði var þó að finna í fyrri útgáfu enda hefur hún verið í gildi um árabil. Eins er tekið fram í innkaupastefnu borgarinnar að ábyrgð á að innkaup séu í samræmi við reglur Reykjavíkurborgar sé á hendi viðkomandi sviðsstjóra, og að við innkaup beri að gæta að ákvæðum laga og reglna í hvívetna.

Eins er tekið fram í reglunum að enginn starfsmaður megi eiga aðild að ákvörðunum um innkaup sem varðar aðila sem þeir eru náskyldir eða í hagsmunatengslum við. Þessi regla byggir á svokölluðum vanhæfisástæðum opinberra starfsmanna.

Ein vanhæfisástæða sem kemur fram í stjórnsýslulögunum kallast undirmannavanhæfi. Reglan byggir á því að þegar yfirmaður er vanhæfur vegna tengsla þá séu undirmenn hans það líka. Þessi regla gildir fyrir starfsmenn ríkisins, en undanþága er gerð í sveitarstjórnarlögum. Sú undanþága grundvallast á veruleika minni sveitarfélaga landsins þar sem ætla má að vanhæfisástæður séu í ríkari mæli til staðar en annars staðar. Því er sérstaklega tekið fram að ef uppbygging stjórnkerfi sveitarfélags, eða eðli máls, gefi tilefni til þá geti undirmannavanhæfi átt við.

Liggur því beinast við að þessi undantekning eigi ekki við um Reykjavíkurborg, sem er stærsta sveitarfélagið á landinu og eina borgin. Engu að síður hefur borgin ekki sett sér reglur til að slá undirmannavanhæfi á föstu. Bæði í reglum og samþykktum borgarinnar um hæfi er aðeins að finna skírskotun til hæfisreglna stjórnsýslulaga og tekið fram að undantekningar sveitarstjórnalaga gildi fullum fetum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Voru gerð mistök við val á íþróttamanni ársins? – „Mér brá óneitanlega mikið í kvöld“

Voru gerð mistök við val á íþróttamanni ársins? – „Mér brá óneitanlega mikið í kvöld“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Líkfundurinn var aðeins byrjunin á ótrúlegri fléttu – „Ruglað fólk gerir ruglaða hluti“

Líkfundurinn var aðeins byrjunin á ótrúlegri fléttu – „Ruglað fólk gerir ruglaða hluti“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Egill Þór er látinn

Egill Þór er látinn
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“