Segja má að áætlunum um að reisa álver á vegum Norðuráls í Helguvík hafi endanlega lokið með formlegum hætti með tilkynningu sem birt var í Lögbirtingablaðinu í gær um að gjaldþrotaskiptum á félaginu Norðurál Helguvík ehf. sé lokið.
Fyrsta skóflustungan að álverinu var tekin sumarið 2008 og voru miklar vonir bundnar við það á Suðurnesjum að það myndi hafa í för með sér fjölgun vel launaðara starfa á svæðinu. Áætlað var að störfin í álverinu yrðu um 400 og enn fleiri þegar kæmi að afleiddum störfum.
Bygging fyrsta áfanga var hafinn fljótlega eftir það og stendur hluti af fyrirhuguðum kerskála enn í Helguvík en fyrsta áfanganum lauk þó aldrei. Samningar voru gerðir við HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur um að útveguð yrði orka en miðað við fréttir fjölmiðla frá þessum árum var beðið eftir að Landsvirkjun myndi bætast í hópinn til að nægileg orka fengist. Í frétt Kjarnans frá 2016 kemur hins vegar fram að Landsvirkjun hafi ekki átt næga orku til reiðu og heldur ekki verið þá tilbúið að semja um að útvega orku fyrir álverið í ljósi lágs heimsmarkaðsverðs á áli. Einnig segir í fréttinni að HS Orka hafi fljótlega hafist handa við að losa sig undan samningnum. Fékkst það loks í gegn eftir úrskurð gerðardóms.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra á árunum 2013-2017, beitti sér fyrir því að Landsvirkjun myndi útvega álverinu orku en í frétt Kjarnans segir að hún hafi viðurkennt 2016 að ekkert yrði líklega af því og það sama hafi Bjarni Benediktsson þáverandi fjármálaráðherra gert í umræðum á Alþingi.
Síðan þá hafa verið uppi hugmyndir um að selja þann hluta álversins sem risinn er og koma þar upp annars konar atvinnustarfsemi. Árið 2020 greindu Víkurfréttir frá því að Norðurál Helguvík ehf. hefði farið þess á leit við yfirvöld í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ að gera breytingar á samningum félagsins við sveitarfélögin svo hægt væri að selja það sem stæði af fyrirhuguðu álveri.
Sú sala gekk hins vegar ekki eftir og nú er eins og áður segir gjaldþrotaskiptum á Norðurál Helguvík ehf. endanlega lokið. Lýstar kröfur í þrotabúið voru 19,7 milljarðar króna en 402,6 milljónir króna fengust greiddar upp í almennar kröfur.
Í frétt Viðskiptablaðsins frá 2021 kemur fram að eini kröfuhafinn hafi verið móðurfélagið Norðurál og að eigandi þess, bandaríska fyrirtækið Century Aluminum, hafi afskrifað Helguvíkurverkefnið um tæpa 16 milljarða króna í bókhald sínu árið 2016.
Það er því í raun nokkur ár síðan ljóst var að ekki myndi rísa álver í Helguvík en með gjaldþrotaskiptunum lauk sögu fyrirætlana um að reisa það með formlegum hætti. Eftir stendur sá hluti þess sem þegar hefur verið reistur. Tómar og ókláraðar byggingar eins og tákn um það sem aldrei varð og von Suðurnesjamanna um fjölda vel launaðara starfa í heimabyggð sem aldrei rættist.