Norska vinnueftirlitið hefur komist að því að Oslóarháskóli hafi brotið nokkrar reglur vinnustaðalöggjafar landsins í rannsókn sinni á stunguárásinni á Ingunni Björnsdóttur. Háskólinn hefur viðurkennt brotalamir í sínu verklagi.
Ingunn Björnsdóttir, dósent í lyfjafræði, og annar starfsmaður háskólans urðu fyrir fólskulegri stunguárás þann 24. ágúst síðastliðinn af hálfu nemanda. Ingunn slasaðist mikið og máli vakti gríðarlega athygli í Noregi.
Í viðtali við DV þann 23. september lýsti Ingunn þessari reynslu. Hún kom heim til Íslands þar sem það var of yfirþyrmandi að vera áfram í Noregi.
„Fyrsta tilfinningin sem ég fann fyrir var undrun. Og síðan kom hræðslan,“ sagði Ingunn í viðtalinu þegar hún rifjaði upp árásina. Hún sagði hverja einustu sekúndu vera greipta í minni sér.
„Á þeim tímapunkti var ég viss um að ég myndi deyja. En það var svo merkilegt að þegar ég var orðin sannfærð um það þá fann ég að ég óttaðist ekki dauðann. Það er mjög sterk minning.”
Ingunn hlaut mikla áverka á vinstri handlegg þar sem árásarmaðurinn skar í sundur vöðva og sinar. Einnig hlaut hún djúpa skurði á hægri fæti. Stungurnar voru nítján talsins. Litlu mátti muna að verr færi.
„Við teljum að það sé alvarlegt að vinnuveitandinn hafi ekki tryggt nægjanlega öryggi gegn ofbeldi og ógnunum,“ sagði Kirsti Been Torft, sviðsstjóri hjá norska vinnueftirlitinu sem gaf Oslóarháskóla fjögur tilmæli eftir rannsókn sína á árásinni.
Eitt af því sem gerðar voru athugasemdir við var hættumatið. Hættumat stærðfræði- og náttúruvísindadeildarinnar var ekki nægilega afmarkað. Við deildina starfa tvö þúsund starfsmenn á mismunandi stöðum.
Annað atriðið er skortur á þjálfun. Í reglum deildarinnar sjálfrar segir að starfsfólk eigi að fá þjálfun í að takast á við atvik þar sem ofbeldi eða ógnunum er beitt. Þessi kennsla hefur hins vegar ekki farið fram.
Þá hefur starfsfólki ekki verið kennt að reyna að koma í veg fyrir að atvik eins og þetta eigi sér stað. Einnig voru gerðar athugasemdir við að starfsfólk hefði ekki setið námskeið hjá vinnueftirlitinu.
Hefur Oslóarháskóla verið gefinn tími fram í júní til þess að svara þessum athugasemdum. Háskólinn hefur þegar brugðist við að sumu leyti og viðurkennt að það skorti upp á hættumatið svo dæmi sé tekið. Nú sé í gangi skýrslugerð um ofbeldi, ógnanir og áhrif þeirra á vinnustaðnum.
„Við þurfum að klára gerð hættumatsins áður en við getum hafið þjálfun,“ segir í bréfi frá háskólanum.
Árásarmaðurinn hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps og alvarlega líkamsárás. Hann hafnar fyrri ákæruliðnum en hefur játað hinn síðari. Ekki er vitað hvenær réttarhöldin munu hefjast, en málið er komið úr höndum lögreglu og til saksóknara.