fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Stríðstrommur dynja – Evrópa undirbýr sig undir stríð

Ritstjórn DV
Föstudaginn 9. febrúar 2024 04:33

Úkraínskir hermenn við stórskotaliðsbyssu í Kherson. Engin eftirlíking hér á ferð. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er hætta á stríði. Fyrst vöruðu Svíar við því og í kjölfarið fylgdu Bretar, Þjóðverjar, Pólverjar, Eistar og Danir. Er hættan talin á að Rússar muni láta reyna á samstöðu bæði NATO og ESB og valda klofningi í álfunni.

Óhætt er að segja að Evrópa sé farin að búa sig undir stríð og það liggur á að verða reiðubúin undir það. Rússar eru vel á veg komnir með að breyta efnahagslífi sínu og framleiðslu yfir í stríðsefnahag. Í stuttu máli þýðir það að á sama tíma og NATO-ríkin ræða  hvernig þau eiga að ná að eyða tveimur prósentum af vergri þjóðarframleiðslu í varnarmál og hvaða vopnum eigi að fjárfesta í, þá keyra rússnesk færibönd á fullum afköstum.

„Við höfum ekki eins langan tíma og við héldum,“ sagði Flemming Lentfer, yfirmaður danska hersins, um helgina.

„Það getur komið til stríðs í Svíþjóð,“ sagði Carl-Oskar Bohlin, ráðherra almannavarna í Svíþjóð, nýlega á ráðstefnu um öryggismál í Salen.

Jótlandspósturinn segir að á þessari sömu ráðstefnu hafi Pål Johnson, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, slegið því föstu að Rússar séu að undirbúa sig undir stríð, að deilurnar í Miðausturlöndum geri að verkum að athygli Evrópu dreifist og það sé ekki víst hvernig Bandaríkin muni bregðast við að forsetakosningunum í Bandaríkjunum afstöðnum í nóvember ef Donald Trump ber sigur úr býtum. Hann hefur ítrekað sáð efasemdum um hvort Bandaríkin muni standa við fimmtu grein NATO-sáttmálans um að árás á eitt aðildarríki jafngildi árás á þau öll.

„Ekki er hægt að útiloka að ráðist verði með vopnavaldi á Svíþjóð. Stríðið getur einnig komið til okkar,“ sagði Johnson.

Viku síðar hélt Grant Shapps, varnarmálaráðherra Bretlands, ræðu í Lundúnum þar sem hann varaði við óvissutímum og sagði að Bretar muni nú verja 2,5 prósentum af vergri þjóðarframleiðslu sinni í varnarmál. „Við færum okkur úr eftirstríðstímanum yfir í fyrirstríðstímann. Við verðum að vera undir það búin að geta tryggt frelsi okkar,“ sagði hann.

Fjórum dögum síðar var röðin komin að Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands. Í viðtali við Tagesspiegel sagði hann að raunveruleg hætta sé á að Rússar ráðist á NATO-ríki: „Sérfræðingar okkar reikna með að það geti gerst innan fimm til átta ára.“

Tæpri viku síðar var röðin komin að Andrzej Duda, forseta Póllands, sem sagði skýrt og greinilega að raunveruleg hætta sé á að NATO-ríkin dragist inn í stríð. Þennan sama dag sagði Martin Herem, yfirmaður eistneska hersins, að að það sé orðið líklegra en áður að Rússar muni láta reyna á NATO. Til að mæta því sé hægt að vera undirbúinn og þeim mun betur undirbúinn, þeim mun minni líkur séu á að Rússland muni reyna að láta reyna á NATO. „En ef við undirbúum okkur ekki og ef við tölum ekki um þetta, þá gefum við þeim tromp á hendi,“ sagði hann í samtali við eistneska sjónvarpsstöð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt