En Navalny lætur þetta ekki halda aftur af sér og hefur nú blandað sér í forsetakosningarnar sem fara fram í mars. Þær verða auðvitað ekki spennandi því lýðræði er nú ekki við lýði í Rússlandi og engar líkur á að Pútín ætli að gefa völd sín eftir. Kjörstjórn landsins hefur komið í veg fyrir framboð sumra þeirra sem vildu bjóða sig fram og mega þeir hinir sömu kannski teljast heppnir að Pútín lét ekki koma þeim fyrir kattarnef. Það er svo sem ekki um auðugan garð að gresja í þessum efnum því flestir stjórnarandstæðingar hafa flúið land eða eru í fangelsi eins og Navalny.
Navalny birti nýlega nokkrar færslur á X þar sem hann segir að forsetakosningarnar séu góður vettvangur til að mótmæla Pútín. Hann hvetur kjósendur, sem styðja Pútín ekki, til að streyma á kjörstað á sama tíma, klukkan 12.00. Rökin fyrir þessu eru að hans sögn að það sé ekki nægilegt að greiða atkvæði gegn Pútín því úrslitunum verði hvort sem er hagrætt.
En langar raðir, þar sem andstæðingar Pútíns standa til að greiða atkvæði gegn honum, munu að mati Navlny senda mikilvæg skilaboð: „Þetta gæti verið sterk sýning á stemmningunni meðal þjóðarinnar. Hinir raunverulegu kjósendur gegn skáldskapnum. Alvöru fólk, sem stendur í röð til að greiða atkvæði gegn Pútín, gegn hinum fölsuðu „já-atkvæðum“,“ skrifaði Navalny.
Stór mótmæli eru ákaflega sjaldgæf í Rússlandi vegna hættunnar á að fólk verði handtekið, sérstaklega eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu. En Navalny segir að mótmæli af þessu tagi verði örugg vegna þess að fólki sé heimilt að mæta á kjörstað og raunar hvetji yfirvöld fólk til að gera það. Auk þess muni margir mæta á kjörstað um miðjan dag og því „verður útilokað að bera kennsl á þá sem greiða atkvæði gegn Pútín,“ skrifaði hann.