Vinna við að koma nýrri heitavatnslögn í gagnið fyrir Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Voga er sögð ganga vel og líklegt er talið á þessari stundu að hún verði tekin í notkun innan sólarhrings.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur tjáð Mbl.is að verið sé að klára suðuvinnu og að fergja nýju lögnina sem lögð hafði verið frá orkuverinu í Svartsengi og að vonir standi til að koma vatni á lögnina á morgun.
Hún lofar þá sem hafa unnið að þessu í dag og tekist að framkvæma þetta í kappi við hraunið í hástert og segir þá hafa sýnt mikið hugrekki. Nú sé verið að smíða tækjabúnað til að tengja lögnina og vonir standi til þess að hægt sé að hleypa vatni inn á hana síðdegis á morgun.
Guðrún segir að á meðan ekkert heitt vatn sé á Keflavíkurflugvelli sé líklegt að raskanir verði á flugi þar sem afísíngarbúnaður virki ekki án heits vatns.
Í samtali við RÚV lýsti Víðir Reynisson sviðstjóri almannavarna stöðu mála við vinnuna við nýju lögnina nánar.
Hann segir að unnið hafi verið að því síðan fyrir jól að grafa fyrir annarri heitavatnslögn í jörðu, sem hægt væri að nýta ef það sem nú hefur gerst með gömlu lögnina myndi gerast.
Það sem einkum sé eftir sé að tengja nýju lögnina á Njarðvíkurlínuna norðan við hraunið og bjóst Víðir við að sú vinna gæti tekið um sólarhring.
Þangað til brýnir Víðir fyrir íbúum að fara sparlega með rafmagn, loka gluggum og nota fáa rafmagnsofna – helst ekki fleiri en tvo. Hann segir heildarnotkun á heimili ekki mega fara yfir 2500 wött.
Öll frávik frá því geti orðið til þess að kerfið slær út með tilheyrandi rafmagnsleysi.
Páll Erland forstjóri HS Veitna sagði hins vegar í samtali við Vísi að ef hraunið heldur áfram að breiða mikið úr sér verði nýja lögnin í hættu og lendi hún undir hrauni geti heitavatnsleysi á Suðurnesjum varað í margar vikur. Hann segir líklegt að varabirgðir sem nú er keyrt á klárist innan sólarhrings og þá verði alveg heitavatnslaust á Suðurnesjum þar til nýja lögnin kemst í notkun.