Brasilíska Playboy fyrirsætan Cris Galera endaði á spítala eftir nektarmyndatöku á Íslandi. Galera var of lengi fáklædd úti í miklum kulda og fékk ofkælingu. Hún lét meðal annars mynda sig við Grindavík þar sem lögreglan stöðvaði myndatökuna.
Bandaríska útgáfan af breska dagblaðinu The Sun greinir frá þessu.
Galera er 36 ára gömul og er frá borginni Sao Paulo í Brasilíu. Hún kom til Íslands í lok desember með kærasta sínum, bæði til að halda upp á áramótin og til að láta smella af sér nokkrum djörfum ljósmyndum.
„Ég elska að vera nakin og þegar ég var á Íslandi hugsaði ég, af hverju ekki hér?“ sagði hún við The Sun.
Mikið frost var úti og þurfti Galera fimm daga til að safna kjarki fyrir myndatökurnar. Til að byrja með lét hún mynda sig í rauðu bíkíní en síðan fór hún í Evuklæðin þrátt fyrir aðvaranir allra nærstaddra.
„Allir horfðu á mig þegar ég var að fara úr fötunum. Þau sögðu: Ekki gera þetta, þú deyrð, og lögreglan kemur, það er bannað að vera allsber á þessum stað,“ sagði Galera.
Galera lét taka af sér margar myndir. Meðal annars eina berbrjósta mynd við skilti Grindavíkur og var hún ekki smeyk við jarðhræringarnar frekar en kuldann.
„Þetta var áhætta og ég var viljug að hætta lífi mínu, það var ískalt, en nekt í blóði mínu og þessi áhætta var vel þess virði,“ sagði hún.
Að sögn fyrirsætunnar gekk allt vel framan af og hún sagðist ekki finna fyrir miklu fyrr en eftir á. Þá áttaði hún sig á alvarleika málsins.
„Eftir á hugsaði ég: Guð minn góður, ertu biluð? Af hverju gerði ég þetta? En ég lét vaða,“ sagði hún. „Hendurnar stirðnuðu upp, urðu rauðar og ískaldar. Þetta var mjög sársaukafullt, en þegar ég horfi til baka þá var þetta það besta sem ég hef gert í lífinu af því að ég hef aldrei séð fallegri stað en Ísland. Allt sem ég vill gera, geri ég. Út af þessu ferðast ég og geri ljósmyndir og myndbönd.“
En Adam var ekki lengi í paradís. Þegar Galera var að bera sig í Grindavík kom lögreglan og stöðvaði myndatökuna.
„Þau sögðu að þetta væri opinbert rými þar sem væru fjölskyldur og börn og að ég mætti ekki gera þetta,“ sagði Galera.
Það var á þessum tímapunkti sem Galera sá að eitthvað var ekki í lagi og bað um að fá að komast samstundis á spítala. Hún var að ofkælast.
„Ég var í næstum því tíu mínútur úti án þess að vera í úlpunni minni. Það mesta sem má vera eru þrjár mínútur, en ég vildi taka upp mörg myndbönd og margar ljósmyndir, og ég var næstum því dauð.“
Þegar hún kom á spítalann var henni sinnt vegna ofkælingarinnar. Hún fékk heitt teppi og heitt te að drekka. Ekki þurfti að gera mikið meira fyrir fyrirsætuna en það.
„Ég var sett í mjög heitt herbergi í einn klukkutíma og eftir það var allt í lagi,“ sagði Galera.
Þrátt fyrir þennan hildarleik ætlar Galera að koma aftur á næsta ári. „Þetta land er ótrúlegt,“ sagði hún.