Ungur piltur, átján ára að aldri, lést þann 16. janúar eftir ofneyslu í heimahúsi í Fellahverfinu í Breiðholti. Ung kona lést vegna ofneyslu í sama húsi fyrir aðeins einu ári síðan.
„Það er ekki grunur um að neitt saknæmt hafi átti sér stað,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á miðlægri rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um málið.
Það var 31. janúar á síðasta ári sem DV greindi frá því að ung kona hefði verið flutt á bráðadeild vegna ofskammts fíkniefna. En atvikið átti sér stað í heimahúsi í Fellahverfinu í Breiðholti um þá nótt. Þann 23. febrúar greindi DV frá því að konan hefði látist. Þá staðfesti Grímur einnig að ekki væri talið að andlát konunnar hefði borið að með saknæmum hætti.
Um er að ræða heimili manns sem er þekktur í undirheimum borgarinnar og hefur hlotið dóma fyrir ofbeldisbrot og fleira. Að sögn heimildarmanna er algengt að ungmenni haldi til í íbúðinni.