fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Fréttir

Lögreglukonur oftast fyrir áreitni af lögreglumönnum en lögreglumenn af utanaðkomandi konum

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 5. febrúar 2024 12:30

Kynjahlutfallið er að verða jafnara en vinnustaðurinn er enn þá mjög kynjaskiptur. DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Birtingarmynd kynferðislegrar áreitni innan lögreglunnar hefur breyst á undanförnum áratug. Færri lögreglukonur nefna snertingu en fleiri niðrandi tal og brandara af kynferðislegum toga nú en áður.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem ber heitið Vinnumenning lögreglunnar: Staða og þróun jafnréttismála.

15 prósent starfsfólks lögreglunnar hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni og algengara er að konur verði fyrir henni. Reynsla karla hefur staðið í stað eða minnkað.

Menntaðar lögreglukonur eru sá hópur sem líklegastur er til að verða fyrir áreitni og oftast af karlkyns samstarfsmanni, eða í 60 prósentum tilvika. Algengast er að karlar verði fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu kvenkyns utanaðkomandi aðila, eða í 74 prósentum tilvika.

Þá eru konur líklegri til þess að hafa orðið fyrir kynbundinni áreitni í sínum störfum eða í tengslum við þau. 11 prósent hafa orðið fyrir kynbundinni áreitni, 18 prósent kvenna en 7 prósent karla.

Sé litið til fyrri kannana sést að einelti hefur minnkað innan lögreglunnar. 14 prósent segjast hafa orðið fyrir einelti.

Konum gengur betur að samræma vinnu og einkalíf

Konum hefur fjölgað í lögreglunni frá árinu 2013 og er hlutfallið að verða jafnara á milli kynjanna. Hins vegar er lögreglan enn mjög kynjaskiptur vinnustaður og engin merki á að það muni breytast nema gripið verði til aðgerða. Af lögreglumönnum eru 75 prósent karlar og 25 konur. Þá er brottfall meira hjá konum og flestir æðstu stjórnendur eru karlar.

Í rannsókninni kemur fram að meirihluti starfsfólks sé ánægt með framgang ferils síns. Einkum hefur ánægja lögreglukvenna aukist. Konum gengur betur að samræma vinnu og einkalíf en körlum.

Finnborg S. Steinþórsdóttir aðjúnkt og Gyða M. Pétursdóttir prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands framkvæmdu rannsóknina. Rannsóknin var framhaldsrannsókn á vinnumenningu kynjatengslum sem gerð var fyrst árið 2013. Ríkislögreglustjóri bar ábyrgð á rannsókninni í samvinnu við lögregluembættin í landinu og dómsmálaráðuneytið.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt