fbpx
Laugardagur 02.nóvember 2024
Fréttir

Kallar eftir uppsögn Þóru eftir þátt um Lækna-Tómas – „Þessi umfjöllun var unnin að ígrunduðu máli“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 4. febrúar 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gustað hefur um RÚV og útvarpskonuna Þóru Tómasdóttur eftir þátt hennar um Tómas Guðbjartsson lækni, þann þriðja janúar síðastliðinn. Birtir hafa verið langir pistlar þar sem meira að segja hefur verið kallað eftir uppsögn hennar en Þóra og yfirmaður hennar hjá Rás 1, Fanney Birna Jónsdóttir, standa við umfjöllunina.

„Þessi umfjöllun var unnin að ígrunduðu máli. Hún byggir á frásögnum heimildarmanna sem bera fyrir sig nálægðarvanda. Hún snerist ekki um sekt eða sakleysi Tómasar í plastbarkamálinu heldur stöðu hans innan spítalans á þeim tíma sem fréttin var unnin,“ segir Þóra. „Ekkert sem fram kom í þættinum hefur verið borið til baka af spítalanum.“

Að öðru leyti vilji hún ekki tjá sig um málið. Heimildarmenn í þættinum eru níu læknar sem ekki vildu láta nafns síns getið. Haft hafi verið samband við Tómas en hann ekki viljað tjá sig. Hann gerði það hins vegar í yfirlýsingu áttunda janúar.

Sagðist Tómas hafa fylgt ráðum lækna og farið í sjúkraleyfi (seinna kom í ljós að hafi verið vegna ristilkrabbameins). Þá sagði hann einnig að hann hefði ekki haft þá einbeitingu sem starf hans krefst undanfarið vegna stormsins sem geisaði.

Lýsti hann meðal annars því hvernig hann hefði verið kallaður til sem vitni hjá innlendum og erlendum rannsóknaraðilum í tengslum við plastbarkamálið.

„Ég biðst afsökunar á þeim atriðum í þessu máli sem hefðu betur mátt fara og sneru að mínum störfum sem læknir og fræðimaður, og hversu langan tíma það tók mig að sjá í gegnum Paolo Macchiarini og þann blekkingarvef sem hann skóp, og er vel lýst í þáttunum Bad Surgeon á Netflix,“ sagði hann.

Nafnlausir læknar

Ólafur Hauksson, framkvæmdastjóri og fyrrverandi ritstjóri, bættist í vikunni í hóp þeirra sem hafa gagnrýnt þáttinn „Þetta helst“ sem Þóra stýrði þriðja janúar, í löngum pistli á samfélagsmiðlum. Segir hann að Ríkisútvarpið hljóti að skoða stöðu hennar vegna „óvandaðra vinnubragða“ sem hafi verið stunduð til að „hafa æruna af Tómasi Guðbjartssyni.“

Sjá einnig:

Tómas Guðbjartsson kominn í leyfi – Framtíð hans á Landspítalanum sögð vera í skoðun

„Ég velti fyrir mér hvort meinfýsnisleg umfjöllun Þóru Tómasdóttur í RÚV um Tómas Guðbjartsson lækni eigi engar afleiðingar að hafa fyrir hana sem blaðamann,“ spyr Ólafur. „„Þetta helst“ þáttur Þóru í RÚV þann 3. janúar sl. gekk út á að samkvæmt heimildum væri Tómas kominn í leyfi frá störfum á Landspítalanum vegna plastbarkamálsins svokallaða. Hún bætti því við, svona til að árétta saknæmið, að um væri að ræða eitt mesta hneyksli vestrænnar læknisfræði í áratugi. Þóra sagði, án þess þó að bera fyrir sig heimildir, að hjá æðstu stjórnendum spítalans telji allnokkrir að Tómas þyrfti að sæta ábyrgð fyrir þátt sinn í plastbarkamálinu, sumir að hann yrði hreinlega að hætta störfum, svo afdrifarík hafi aðkoma hans að því verið.“

Gagnrýni Ólafs kemur í kjölfar harðorðra pistla frá Magnúsi Karli Magnússyni, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, og Gunnari Ármannssyni, lögmanni og fyrrverandi formanni Læknafélagsins. Einnig hefur komið fram gagnrýni frá Óðni Jónssyni, fyrrverandi fréttastjóra RÚV.

„Það er auðvitað ekki boðlegt að vitna í ónafngreinda einstaklinga til að grafa undan mannorði nafngreindrar persónu. Það er ekki fréttamennska heldur lúaleg aðför,“ sagði Óðinn á samfélagsmiðlum.

Baðað sig í athygli

Í þættinum er ekki aðeins fjallað um plastbarkamálið. Heldur einnig ýmis atriði sem heimildarmönnunum þykir ekki sæmandi. Það er hvernig Tómas hafi tranað sér fram í fjölmiðlum. Eru nefnd þar dæmi um Kastljósþátt um hjartaaðgerð eftir stungusár sem Tómas sjálfur hafi stungið upp á við RÚV sem og að hann hafi baðað sig í athygli eftir björgun drengjanna þriggja sem lentu í Hafnarfjarðarhöfn í janúar árið 2020.

Ólafur gagnrýnir þetta og segir að óskyldum atriðum sé blandað inn í umræðuna um plastbarkamálið.

Sjá einnig:

Sakar RÚV um aðför að mannorði Tómasar – „Það er ekki fréttamennska heldur lúaleg aðför“

„Haft var eftir hvorki meira né minna en níu ónafngreindum læknum, sem sumir voru sagðir fyrrverandi samstarfsmenn Tómasar, að „vaxandi kergju“ gætti innan Landspítalans vegna þeirrar „hegðunar“ hans að tjá sig um læknisfræðileg málefni og vera vinsæll viðmælandi fjölmiðla,“ segir Ólafur. „Fyrir mig sem fylgist með Tómasi á Facebook og heyri stundum til hans í fjölmiðlum er umrædd „hegðun“ hans til fyrirmyndar og ég efa ekki að fleiri eru á sama máli. Á Facebook er hann óspar á hrósið þegar nemendum hans gengur vel í rannsóknarstörfum, hann segir frá nýjungum og framförum í læknavísindum og tekur dæmi úr eigin reynslu. Fyrir venjulegt fólk er þetta til mikillar fyrirmyndar, fjölmiðlar sækjast eftir að heyra frá Tómasi og koma aldrei að tómum kofanum hjá honum. Nema Þóra á RÚV, henni þykir áhugaverðara að heyra hvað nafnlausum öfundarmönnum finnst um Tómas.“

Undir þetta taka meðal annars Óskar Magnússon, fyrrverandi útgefandi Morgunblaðsins, og Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra og dómsmálaráðherra.

„Að svona vinnubrögð viðgangist átölulaust á fréttastofu Ríkisútvarpsins sýnir að þar eru ekki nein fagleg viðmið í heiðri höfð,“ segir Björn í athugasemd.

Byggð á faglegum vinnubrögðum

DV leitaði einnig til Fanneyjar Birnu Jónsdóttur, dagskrárstjóra Rásar 1.

„Ég sé ekki ástæðu til að svara sérstaklega einstökum spurningum, umfram það að við teljum að umfjöllunin hafi átt erindi við almenning, hún hafi byggst á faglegum vinnubrögðum í samræmi við viðurkennd viðmið og rúmast innan þess frelsis sem fjölmiðlum er játað samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár og 10. gr. mannréttindasáttmála  Evrópu,“ segir Fanney Birna.

Hér má heyra þáttinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Maðurinn sem er grunaður um að hafa banað móður sinni í Breiðholti úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald

Maðurinn sem er grunaður um að hafa banað móður sinni í Breiðholti úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald
Fréttir
Í gær

Efni sem valda krabbameini og ófrjósemi fundust í snyrtivörum – Eilífðarefni í vörum Sephora og Kiko

Efni sem valda krabbameini og ófrjósemi fundust í snyrtivörum – Eilífðarefni í vörum Sephora og Kiko
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hjúkrunarfræðingar kæra launamun: „Það er 2024 og við erum stödd þarna“

Hjúkrunarfræðingar kæra launamun: „Það er 2024 og við erum stödd þarna“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmar furðar sig á viðbrögðunum: „Elín Margrét lét þá ekki slá sig út af laginu“

Sigmar furðar sig á viðbrögðunum: „Elín Margrét lét þá ekki slá sig út af laginu“