fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fréttir

Segir Votta Jehóva hafa hótað Morgunblaðinu

Ritstjórn DV
Laugardaginn 3. febrúar 2024 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eydís Mary Jónsdóttir, sem tjáð hefur sig nokkrum sinnum opinberlega um æskuár sín í Vottum Jehóva og það ofbeldi og útskúfun sem hún hafi bæði upplifað og orðið vitni að, greinir frá því á Facebook-síðu sinni að hún hafi fengið skilaboð um að Morgunblaðinu hafi borist hótunarbréf frá stjórn Votta Jehóva í Skandinavíu í kjölfar viðtals við hana sem birtist á Mbl.is 18. janúar síðastliðinn. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem forsvarsmenn Votta Jehóva á Norðurlöndum deila við íslenska fjölmiðla og saka þá um rangfærslur.

Jörgen Pedersen, einn talsmanna Votta Jehóva á norðurlöndum, ritaði grein í Morgunblaðið í mars á síðasta ári þar sem hann sakaði íslenska fjölmiðla, meðal annars Stöð 2 og RÚV um rangfærslur í umfjöllunum sínum um Votta Jehóva, ekki síst hér á landi. Hann sagði það ekki rétt sem þar kæmi fram að innan Votta Jehóva hefði meðal annars viðgengist líkamlegt og andlegt ofbeldi, ekki síst í formi útskúfunar. Sakaði hann fyrrum meðlimi safnaðarins sem héldu þessu fram í umræddum umfjöllunum um lygar og vildi meina að fjölmiðlarnir hefðu borið ærumeiðingar á borð fyrir almenning.

Einn þeirra fyrrum meðlima sem fullyrti þetta var Örn Svavarsson, stofnandi Heilsuhússins. Hann svaraði grein Pedersen og sagðist standa við hvert orð og endurtók fullyrðingar sínar.

Sjá einnig: Takast á um Votta Jehóva – „And­styggi­legt form refs­ing­ar, and­legt of­beldi í sinni verstu mynd“

Áðurnefnd Eydís Mary Jónsdóttir tók undir með Erni og sagði í grein á Vísi að engin ósannindi hefðu komið fram í umfjöllun íslenskra fjölmiðla um Votta Jehóva. Hún hefði sjálf upplifað og orðið vitni að líkamlegu og andlegu ofbeldi gegn börnum innan safnaðarins hér á landi.

Sjá einnig: Eydís lýsir ofbeldi hjá Vottunum: Börn dregin á eyrunum inn í hliðarherbergi og potað milli rifja á kornabarni

Vottar Jehóva kvörtuðu yfir umfjöllun RÚV við Fjölmiðlanefnd sem komst að þeirri niðurstöðu að ekkert væri athugavert við hana.

Sjá einnig: Vottar Jehóva brjálaðir og saka ríkismiðilinn um lögbrot – Seinagangur og málgleði kom þeim þó í koll

Hótun eftir viðtal

Þann 18. janúar síðastliðinn var birt viðtal við Eydísi Mary Jónsdóttur á Mbl.is. Eydís hafði þá verið viðstödd réttarhöld í Noregi en Vottar Jehóva þar í  landi fóru í mál við norska ríkið til að endurheimta styrki sem trúfélagið hafði verið svipt. Það hafði verið gert eftir umfjöllun norska ríkisútvarpsins, NRK, um meðal annars þá útskúfun sem viðgengst innan Votta Jehóva ekki síst gagnvart þeim sem kjósa að yfirgefa söfnuðinn. Var það niðurstaða norskra yfirvalda að Vottar Jehóva hefðu brotið lög um trúfélög.

Í viðtalinu greindi Eydís meðal annars frá því að hafa beinlínis orðið vitni að útskúfun í dómssalnum:

„Til dæm­is var þarna vott­ur sem ég horfði upp á horfa fram hjá for­eldr­um sín­um og yngri syst­ur. Hann lét eins og hann þekkti þau ekki.“

Í viðtalinu lýsti Eydís ítarlega æsku sinni í Vottum Jehóva, en hún fékk á endanum nóg og yfirgaf söfnuðinn, og meðal annars þeirri útskúfun sem viðgengist hefði þar og gerði enn. Hún lýsti sýn Votta Jehóva á heiminn með eftirfarandi hætti:

„Vott­arn­ir sjá sig ekki sem hluta af heim­in­um. Þeir trúa því að heim­ur­inn – sem er allt fyr­ir utan trú­fé­lagið – sé á valdi hins vonda og þar séu bara satan og ill­ir and­ar að reyna að ná þér frá Jehóva og beiti öllu sem þeir geta. Þeir gangi bara um eins og öskr­andi ljón, leit­andi að þeim sem þeir geti gleypt. Svona var mér kennt að horfa á fólk utan safnaðar­ins.“

Í færslu á Facebook síðu sinni fyrr í dag greinir Eydís frá því að hún hafi fengið skilaboð um að ritstjórn Morgunblaðins hafi borist hótunarbréf frá stjórn Votta Jehóva í Skandinavíu þar sem þess sé meðal annars krafist að viðtalið verði fjarlægt:

„Vottarnir eru núna að fara fram á að viðtalið verði fjarlægt og að Morgunblaðið birti grein frá vottunum í blaðinu, annars sé Morgunblaðið í hættu á að vera stefnt fyrir Fjölmiðlanefnd. Mér sýnist Jörgen vera byrjaður að lesa skrifin mín.“

Segir tilburðina sorglega

Þarna er Eydís að vísa til áðurnefnds Jörgen Pedersen sem hefur sakað þau sem greint hafa frá ofbeldi og útskúfun innan Votta Jehóva um lygar. Hún segist hafa hitt Pedersen þegar hún var viðstödd réttarhöldin í Noregi. Eydís segist hafa þakkað honum fyrir greinina sem hann skrifaði í Morgunblaðið í mars í fyrra þar sem hann hefði haldið þessu fram. Pedersen hafi fyrst í stað verið ánægður með þessi orð en annað hljóð hefði komið í strokkinn þegar Eydís hafi útskýrt nánar af hverju hún væri honum þakklát:

„Ég sagði við hann að ég hefði orðið svo uppnumin af bréfinu að ég hafi ákveðið að svara því. Hann sagðist ekki hafa séð svarbréfið mitt svo ég ákvað bara að þakka honum aftur fyrir góð skrif, þau hefðu hreinlega breytt lífi mínu því þau hefðu hjálpað mér til að gera mér grein fyrir mikilvægi þess að standa upp, láta í mér heyra og svara lygum. Við þetta breyttist aldeilis viðmót hans gagnvart mér og væri ég ekki hissa þó honum hefði fundist hann halda í hendina á sjálfum Satan, svipurinn var allavega þannig.“

Eydís segir í færslunni að þessi nýjasti kafli í tilraunum Votta Jehóva til að þagga niður í gagnrýninni umfjöllun um trúfélagið sé sorglegur en hún sé ekki sú eina sem orðið hafi fyrir þöggunartilburðum þess:

„Frekar sorglegt að erlendir fulltrúar risastórs, alþjóðlegs trúfélags, séu svo hræddir við 4 barna móður á fimmtugsaldri uppi á Íslandi að þeir séu að bully-a ritstjórn Morgunblaðsins til þess að taka greinina út. Ég er sögð vera með niðrandi, ærumeiðandi og falskar ásakanir gagnvart vottunum. Hvað er það eiginlega sem Vottarnir eru hræddir við? Getur verið að þeir séu hræddir við Sannleikann um sjálfan sig, því það er ekki verið að segja frá neinu nýju í rauninni? Bara reynslu sem ég deili með milljónum annara fyrrum vottabarna um allan heim.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“
Fréttir
Í gær

Óánægjualda vegna nafnsins á Pablo Discobar – Jón Bjarni segir merkilegt að vera slaufað í Kólumbíu

Óánægjualda vegna nafnsins á Pablo Discobar – Jón Bjarni segir merkilegt að vera slaufað í Kólumbíu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ákæran gegn Sigurði Fannari birt: Játar hvorki né neitar því að hafa banað dóttur sinni

Ákæran gegn Sigurði Fannari birt: Játar hvorki né neitar því að hafa banað dóttur sinni