Karl Steinar ræðir meðal annars nýtt frumvarp dómsmálaráðherra sem kynnt var á dögunum um breytingar á lögreglulögum. Karl Steinar gagnrýnir meðal annars það frumvarp og segir það varfærið. Veltir hann fyrir sér hvers vegna lögregla fái ekki sambærileg tæki og lögregluyfirvöld á honum Norðurlöndunum fá.
Hann ræðir til dæmis um mál manns sem var vísað frá landi á dögunum eftir að í ljós kom að hann tengdist hryðjuverkasamtökunum ISIS. Maðurinn var búinn að dvelja hér á landi í nokkra mánuði. Karl Steinar segir að vel geti verið að fleiri slíkir séu á Íslandi. Aðspurður sagði hann þó að þetta tiltekna mál sem kom upp fyrir skemmstu sé einsdæmi hér á landi.
„Mitt kalda mat er það að við getum ekki útilokað að það séu fleiri. Það gæti alveg verið,“ segir hann. Hugtakið „lone wolf“ er meðal annars notað yfir meðlimi hryðjuverkasamtaka sem koma sér fyrir í öðrum löndum og láta lítið fyrir sér fara – allt þar til þeir eru kallaðir til hryðjuverka. „Það er eitthvað sem við þurfum að hafa í huga,“ segir Karl Steinar og bætir við að það sé hlutverk lögreglu að kanna slík mál og lögregla hér á landi geri það.
Eggert Skúlason, stjórnandi þáttarins, spurði Karl svo að því hvort það væri orðið miklu hættulegra en áður að búa á þessari litlu, Íslandi.
„Ég myndi segja að það hefur margt breyst. Við erum samt sem áður mjög friðsælt samfélag og eru með frekar lága glæpatíðni. Við eigum alveg fullt tækifæri til að halda því áfram en rétta leiðin til þess er ekki sú að takmarka möguleika lögreglu hér umfram það sem er gert annars staðar. Það er ekki mjög góð leið held ég, þá ertu frekar að vinna með brotamönnum en borgurum.“
Dagmál á mbl.is.