Á Alþingi er nú til meðferðar frumvarp til laga um mannanöfn. Flutningsmenn eru fjórir af fimm þingmönnum Viðreisnar og hluti þingflokks Pírata. Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu, sem lagt hefur verið fram á þremur þingum en hefur tekið breytingum eftir umsagnarferli, er markmið þess meðal annars að tryggja rétt einstaklinga til að bera það nafn eða þau nöfn sem þeir kjósa og tryggja að lög um mannanöfn takmarki ekki persónufrelsi fólks eða frelsi fólks til að skilgreina sig. Í umsögn sinni um frumvarpið segir Salvör Nordal umboðsmaður barna hins vegar að í því séu ekki nægilegir varnaglar gagnvart því að börnum verið gefin nöfn sem líkleg séu til að valda þeim ama og vanlíðan.
Í umsögn Salvarar segir að í fyrri útgáfum frumvarpsins hafi ekki verið gert ráð fyrir að hægt væri að koma í veg fyrir að hægt væri að skrá nöfn á börn sem gætu orðið þeim til ama. Því hafi eftirfarandi ákvæði verið bætt inn í frumvarpið:
„Sé barni gefið nafn sem er augljóslega meiðandi eða vanvirðandi skal það teljast vanvirðandi háttsemi í skilningi 1. gr. barnalaga, nr. 76/2003, og hljóta málsmeðferð í samræmi við það. Í þeim tilvikum skal Þjóðskrá Íslands skora á forsjáraðila að breyta nafni barnsins án tafar að viðlögðum dagsektum allt að 15.000 kr.“
Salvör vísar í greinargerðina með frumvarpinu þar sem segir meðal annars að þrátt fyrir þessa viðbót telji flutningsmenn eftir sem áður að það eigi ekki að vera á forræði hins opinbera að neita foreldrum um að gefa börnum sín viss nöfn eins og Mannanafnanefnd hafi leyfi til að gera.
Salvör tekur undir með flutningsmönnum um að flestir foreldrar velji börnum sínum nöfn af alúð og tilvik þar sem nöfnin séu líkleg til að valda börnum vanlíðan og ama séu örfá. Eftir sem áður sé um mikilvæga hagsmuni barna að ræða og að bera slík nöfn geti valdið þeim mikilli vanlíðan og skaðað sjálfsmynd þeirra.
Það er mat Salvarar að ákvæðið í frumvarpinu um að Þjóðskrá skuli skora á foreldra að breyta nöfnum barna, að viðlögðum dagsektum, séu nöfnin líkleg til að valda þeim vanlíðan sé óheppilegt.
Leggur Salvör til að lögin yrðu að sænskri fyrirmynd þar sem foreldrar þurfi að sækja sérstaklega um skráningu á eiginnafni barns til stjórnvalds sem hafi heimild til að synja skráningu nafnsins ef talið sé líklegt að nafngiftin geti valdið barninu ama.
Salvör segir það sitt mat að löggjöf um mannanöfn þurfi að slá ákveðinn varnagla við því að barn þurfi að bera nafn til lengri eða skemmri tíma, sem til þess sé fallið að
valda því óþægindum og vanlíðan.
Sú leið sem lögð sé til með frumvarpinu nú, þar sem gert sé ráð fyrir sérstakri nafnabreytingu í þessum tilvikum, sé ekki nægilega vel útfærð með tilliti til réttinda barna. Það sé hvorki fjallað sérstaklega um tímamörk né hvort og þá hvernig framkvæma eigi mat á því hvaða afleiðingar slík nafnbreyting kunni að hafa á hagsmuni barns.
Salvör áréttar að lokum að á Alþingi hvíli sú skylda að tryggja börnum þá vernd sem velferð þeirra krefjist og vísar þar til stjórnarskrárinnar, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samnings þeirra um réttindi barnsins.