fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Leikskólakennari býður sig fram til embættis forseta Íslands

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 25. febrúar 2024 13:00

Skjáskot af Facebook-síðunni X-Leikskólakennarinn

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ónefndur leikskólakennari hefur tilkynnt framboð sitt til embættis forseta Íslands. Viðkomandi heldur úti í því skyni Facebook-síðu undir heitinu X-Leikskólakennarinn. Frambjóðandinn vill láta málefnin ráða för enn um sinn og ekki gefa nafn sitt upp að svo stöddu. Málefni barna verða leiðarljós framboðsins.

Á síðunni kemur fram að ástæðan fyrir því að gefa ekki strax upp nafn frambjóðandans sé að málefnin eigi að vera í fyrirrúmi og gefa eigi kjósendum kost á að meta framboðið fyrst og fremst út frá málefnunum en ekki um hvaða einstakling sé að ræða.

Helstu baráttumál leikskólakennarans, samkvæmt Facebook-síðu framboðsins, eru menntun og velferð barna,  jafnara aðgengi barna að íþrótta- og tómstundastarfi, barnaverðlaun fyrir frammistöðu í leik, námi og starfi, skólaskylda elsta árgangs í leikskóla, að nota leik til lestrarkennslu og veita aukna rannsóknar- og þróunarstyrki fyrir slík verkefni og eins það er orðað á Facebook-síðu framboðsins:

„Leikskólinn verði fyrsta skólastigið á borði, ekki bara í orði.“

Alltaf það sem börnum er fyrir bestu

Á síðu framboðsins er einnig áhersla lögð á að fara verði eftir barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þegar kemur að því hvernig haldið er utan um börn í leikskólum sem og víðar í íslensku samfélagi.

DV ræddi við frambjóðandann sem var fyrst spurður hvort lögð yrði áhersla á einhver fleiri mál en þau sem beinlínis eru kynnt á Facebook-síðu framboðsins.

Frambjóðandinn segir að velferð barna og ungmenna séu leiðarljós framboðsins og vísar í 3. grein barnasáttmálans sem kveður á um að fullorðnir skuli ávallt gera það sem börnum er fyrir bestu:

„Undir þetta ættu t.d. að falla starfsaðstæður leikskólabarna í sínu námi, en það gefur augaleið að enginn fullorðinn einstaklingur myndi láta bjóða sér uppá lítið opið vinnurými með lélegri hljóðvist þar sem 20 – 30 starfsmenn eiga að vinna saman 8 – 9 klukkustundir á dag. Því miður er þetta samt staðreyndin í alltof mörgum leikskólum landsins. Ég hef miklar áhyggjur af því að þessar vinnuaðstæður séu hreinlega að bitna mjög illa á líðan og geðheilsu barna í dag og það er eitthvað sem mun svo fylgja þeim inn í framtíðina,“ segir frambjóðandinn.

Frambjóðandinn veltir því einnig upp hvort að leikskólar eigi ekki að vera skilgreindir sem grunnnám hér á landi og vera þar með gjaldfrjálsir:

„Einnig kemur fram í Barnasáttmálanum að tryggja skuli öllum börnum aðgang að grunnnámi og að það skuli vera gjaldfrjálst. Eftir að leikskólastigið var viðurkennt sem fyrsta skólastigið í íslenskum lögum er spurning hvort að það eigi einnig að falla undir skilgreininguna um grunnnám.“

Vill ekki festast í skriffinnskunni á Alþingi

Þótt forsetaembættið eigi í orði kveðnu að vera ópólitískt þá hafa forsetar Íslands oft rætt um ýmis mál sem í mörgum tilfellum hafa verið umdeild og forsetinn hefur eins og aðrir málfrelsi. Í stjórnarskránni eru forsetanum falin ýmis völd en þó kemur einnig fram að hann láti ráðherra framkvæma vald sitt og sé ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Einstaklingur með stefnuskrá eins og leikskólakennarinn virðist því við fyrstu sýn eiga meira erindi á Alþingi en í forsetaembættið. Frambjóðandinn segir hins vegar að hann myndi bara týnast á Alþingi og ekki ná eyrum landsmanna með baráttumál sín:

„Því ég lít svo á að það sé þörf á vitundarvakningu í öllu samfélaginu varðandi þessi málefni og viðhorfsbreyting gagnvart fyrsta skólastiginu, leikskólum, er löngu tímabær. Sem forseti gefast frekar mér frekari tækifæri til að sinna þeim hluta heldur en sem einn margra fulltrúa á Alþingi, fastur í skriffinsku og með takmarkaðan tíma til að eiga í beinum samskiptum við þjóðina.“

Eins og áður segir er frambjóðandinn ekki tilbúinn til að gefa upp nafn sitt að svo stöddu og vill frekar láta málefnin ráða för. Fram kemur þó á facebook-síðu framboðsins að frambjóðandinn eigi að baki meistaranám í leikskólakennarafræðum við Háskóla Íslands. Frambjóðandinn segist í samtalinu við DV hafa starfað á leikskólum í á annan tug ára.

Ætlun frambjóðandans er að fái framboðið og málefnin sem þar eru sett á oddinn góðar undirtektir muni viðkomandi stíga fram undir nafni og hefja söfnun nauðsynlegs fjölda meðmælenda með framboðinu:

„Já, það er planið,“ sagði frambjóðandinn að lokum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Fast skotið á Eyjólf ráðherra: Þetta sagði hann 9. október – Síðan varð hann ráðherra

Fast skotið á Eyjólf ráðherra: Þetta sagði hann 9. október – Síðan varð hann ráðherra
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum ákærður – Sökuð um að stela úr lyfjaskápnum

Hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum ákærður – Sökuð um að stela úr lyfjaskápnum
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Örn vill að borgin setji lóðaleigu á flugvöllinn – „Þeir rændu þá besta mannvistar- og byggingarsvæði Reykvíkinga“

Örn vill að borgin setji lóðaleigu á flugvöllinn – „Þeir rændu þá besta mannvistar- og byggingarsvæði Reykvíkinga“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Stakk lögregluna af en gómaður í kannabisskýi sama dag – „You guys are slow“

Stakk lögregluna af en gómaður í kannabisskýi sama dag – „You guys are slow“
Fréttir
Í gær

Maðurinn sem ók á Ibrahim: „Skelfilegt að enda ferilinn svona“

Maðurinn sem ók á Ibrahim: „Skelfilegt að enda ferilinn svona“
Fréttir
Í gær

Sjáðu hvað Trump sagði um Grænland eftir að hann var svarinn í embætti

Sjáðu hvað Trump sagði um Grænland eftir að hann var svarinn í embætti