Á vef Umboðsmanns Alþingis nú fyrir helgi kom fram að embættið hafi óskað eftir upplýsingum frá Fangelsismálastofnun og Fangelsinu Litla-Hrauni um myndbandsupptökur úr öryggisklefum og meðhöndlun þeirra. Tilefnið var að tilteknum upptökum hafði verið eytt þegar embættið bað um aðgang að þeim vegna kvörtunar sem því hafði borist. Það er ekki tilgreint nánar hvers eðlis kvörtunin en fram kemur að hún hafi borist frá fanga.
Þegar embættið óskaði eftir upptökunum hafi komið í ljós að þeim hefði verið eytt en upplýst hafi verið að það væri jafnan gert að tveimur til þremur vikum liðnum frá upptöku.
Segir enn fremur að Umboðsmaður Alþingis hafi því óskað eftir nánari upplýsingum um verklagið, við eyðingu á upptökum, bæði almennt og þegar upp komi alvarleg atvik, eða kvartanir vegna slíks, sem gerist í vöktuðum rýmum. Jafnframt sé spurt sérstaklega út í nokkur atriði varðandi málið sem varð kveikjan að þessari athugun. Þar á meðal hvort umbeðið myndefni hafi verið skoðað og hvers vegna ekki hafi verið talin ástæða til að varðveita það, með tilliti til hugsanlegrar kvörtunar fangans eða málskots. Loks vilji embættið fá upplýsingar um lyktir þeirrar endurskoðunar sem staðið hafi yfir á verklagi við líkamsleitir á föngum. Óskað sé eftir svörum fyrir 9. mars.