Erla skrifar þar um eldra fólk og velferðarkerfið í heild sinni og segir að vandinn sem heilbrigðiskerfið og Landspítalinn, til dæmis, glími við sé heimatilbúinn hjá stjórnvöldum. Segir hún engu líkara en að eldra fólk þessa lands sé alger afgangsstærð.
„Það nýjasta er það sem ég kalla nútímahreppaflutninga. Þá er gamla fólkið sent á milli staða eða jafnvel landshluta ef einhvers staðar finnst laus pláss á öldrunar- og hjúkrunarheimilum þar. Þetta er algerlega siðlaust. Við eigum betra skilið, búin að skila okkar ævistarfi og höfum unnið að uppbyggingu þessa þjóðfélags,“ segir hún.
Erla segir það lengi hafa legið fyrir að eldra fólki myndi fjölga mikið á komandi árum. Þessa fyrirsjáanlegu fjölgun hefði mátt undirbúa með því að byggja fleiri hjúkrunarheimili og ekki síður þau rými sem vantar sárlega í dag.
„Það eru dvalar- og vistheimili eins og voru til fyrir nokkrum árum þar sem fólk gat sótt um pláss án þess að fara á sjúkra- eða líknardeild. Það eru einmitt slíkir staðir sem eldra fólkið sem er fast á Landspítalanum nú gæti nýtt sér – fólk sem er búið að fá bót meina sinna en getur ekki verið heima og þarf lágmarksþjónustu,“ segir hún og ítrekar að þetta verkefni hafi verið löngu fyrirséð.
„Það var hins vegar einhverra hluta vegna hvorki skipulagt né unnið af ráðamönnum þjóðarinnar. Nú kalla þeir klúðrið fráflæðisvanda og bæta um leið enn einu vandamálinu í útþanið heilbrigðiskerfið sem er á þolmörkum,“ segir hún.
Erla bendir á það sé mikið talað í þessum málum og jafnvel lofað og lofað. En einhverra hluta vegna sé ekkert framkvæmt. Hún sendir ráðamönnum þjóðarinnar skýr skilaboð.
„Ráðamenn tala mikið um hvað allt sé í góðu lagi hér en ættu að skammast sín fyrir hvað margt er vanrækt og mörgu ábótavant í heilbrigðismálum, húsnæðismálum, skólakerfinu og mun víðar. Samt er hægt að taka þátt í stríðsrekstri úti í heimi upp á marga milljarða króna sem okkur kemur andsvítann ekkert við. Og svo má halda montráðstefnu í Hörpu sem engu skilar en kostar of fjár svo sem bíla- og vopnakaup og fleira ber vitni um.“
Erla sendir líka ákall til verkalýðsforystunnar.
„Mikið vildi ég að verkalýðsforystan legði okkur lið í samvinnu við Landssamband eldri borgara því við höfum sennilega flest verið í verkalýðsfélögum meðan við vorum gjaldgeng. Lágmarkskrafan er að launin okkar verði miðuð við lægstu umsamin laun – en ekki langt fyrir neðan þau eins og núna er. Mælirinn er löngu orðinn fullur. Ráðamenn þurfa að vakna af þyrnirósarsvefninum og fara að vinna fyrir kaupinu sínu.“