Athygli vakti á dögunum þegar Kristrún lýsti því yfir að hælisleitendakerfið væri ósanngjarnt og Ísland þyrfti að ganga í sama takti og Norðurlöndin. Sagði Kristrún að velferðarsamfélög þurfi landamæri og kerfið sem nú er við lýði sé ósjálfbært.
Ummæli Kristrúnar vöktu athygli og voru ýmsir sem héldu því fram að um væri að ræða mikla stefnubreytingu hjá Samfylkingunni í innflytjendamálum.
Óli Björn segir í grein sinni að með ummælum sínum hafi hún í raun tekið undir málflutning Sjálfstæðismanna um að samræma yrði löggjöf og regluverk um hælisleitendur við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum.
„Ekki er ólíklegt að Kristrún hafi sótt ráðgjöf í útlendingamálum til Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur og forystukonu danskra jafnaðarmanna. Mette kollvarpaði stefnu jafnaðarmanna í útlendingamálum enda Danir komnir í öngstræti með tilheyrandi vandamálum. Forveri Kristrúnar í formannsstóli var hins vegar ekki hrifinn. Þegar danska þingið samþykkti ný og harðari lög um hælisleitendur í júní 2021 sagði Logi Einarsson á Sprengisandi Bylgjunnar: „Ég ætla að ganga svo langt að segja að ég bara fordæmi danska jafnaðarmenn fyrir þetta.“
Óli Björn segir að stefna jafnaðarmanna í Danmörku í þessum málum geti verið góð fyrirmynd okkar Íslendinga þegar breyta á lögum um útlendinga líkt og boðað hefur verið.
Hann bætir svo við að ummæli Kristrúnar hafi valdið því að margir hafi farið á taugum. Eldar hafi brunnið og slökkvilið verið kallað út.
„Tveir gamlir formenn töldu sig nauðbeygða til að taka til brunavarna fyrir Kristrúnu. Össur Skarphéðinsson hafnaði því að Kristrún hefði verið að boða stefnubreytingu og í sama streng tók Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Kristrún hefði bara verið með „almennar vangaveltur um ýmsar hliðar þessara mála þar sem grunnstefið var sanngirni, mannúð og sjálfbærni“, skrifaði Ingibjörg Sólrún á Facebook. En hún hafði greinilega áhyggjur af því að hinar almennu „vangaveltur“ Kristrúnar væru að ala á sundrungu innan flokksins: „Látum ekki siga okkur hverju á annað.““
Óli Björn segir að Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, hafi talað um skýra og klára stefnubreytingu. Ólafur Þ. Harðarson prófessor, sem Óli Björn segir að hafi stórt „Samfylkingar-hjarta“, hafi bent á í viðtali við RÚV að Kristrún hefði ekki komið með neinar tillögur um breutingar í útlendingamálum. Þá hafi Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar, farið strax í varnarlið Kristrúnar. Jóhann Páll Jóhannsson, helsti samherji Kristrúnar í þingliði Samfylkingarinnar, hafi svo tekið undir með formanninum um að hælisleitendakerfið sé ósjálfbært og Ísland eigi ekki að skera sig úr frá öðrum norrænum löndum.
Bendir Óli Björn svo á að það hafi tekið Loga Einarsson, fyrrverandi formann og núverandi þingflokksformann, nokkra daga að taka undir með formanninum og fyrst í gær hafi Þórunn Sveinbjarnardóttir tekið til máls. Það sé engu að síður athyglisvert að fram til þessa hafi Oddný Harðardóttir þagað þunnu hljóði.
„Í viðleitni til að kæfa eldana sem Kristrún kveikti innan eigin flokks reyna gamlir pólitískir refir Samfylkingarinnar að kenna Sjálfstæðisflokknum um hvernig komið er í málefnum hælisleitenda. Þar eru þeir samstíga Guðmundur Árni og Össur. Eins og svo oft áður eru félagarnir og samherjar þeirra saklausir eins og hvítvoðungar. Baráttan og málflutningur gegn nauðsynlegum lagabreytingum er gleymdur,“ segir Óli Björn og rifjar svo upp tilraunir dómsmálaráðherra á undanförnum árum til að ná fram breytingum á útlendingalögum en átt við ramman reip að draga.
Greinina, sem lesa má í heild sinni í Morgunblaðinu í dag, endar Óli Björn á þessum orðum:
„Það er ánægjulegt að fá staðfestingu á því að formaður Samfylkingarinnar er kominn á sömu skoðun og við Sjálfstæðismenn í þeim efnum. En það mun reyna á pólitísk bein Kristrúnar á komandi vikum gagnvart öflum í grasrót Samfylkingarinnar. Og Kristrún mun illa geta reitt sig á slökkvistarf gamalla formanna.“
Leiðrétting: Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að Óli Björn hefði sagt í grein sinni að Eiríkur Bergmann hefði stórt Samfylkingar-hjarta. Hið rétta er að Óli Björn vísaði til Ólafs Þ. Harðarsonar en ekki Eiríks. Beðist er velvirðingar á mistökunum.