Stjórn Blaðamannafélags Íslands hefur hafið skoðun á fjárreiðum félagsins tíu ár aftur í tímann. Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður hefur einnig lagt inn formlega kvörtun vegna framkomu Hjálmars Jónssonar fyrrverandi framkvæmdastjóra sem hún taldi ógnandi.
„Okkur fannst rétt, í ljósi þess hvað okkur gekk illa að fá fjárhagsupplýsingar, að láta utanaðkomandi aðila skoða þetta. Sú skoðun er í gangi,“ segir Sigríður Dögg.
Til að byrja með var samþykkt á stjórnarfundi að láta skoða fjárreiður þrjú ár aftur í tímann. En á fundi þann 13. febrúar lagði viðurkenndur bókari til að skoðaðar yrðu tilteknar færslur tíu ár aftur í tímann. Var það samþykkt á fundinum.
Mikil ólga hefur verið innan Blaðamannafélagsins á undanförnum mánuðum. Hjálmari var sagt upp störfum eftir rúmlega 20 ár sem framkvæmdastjóri þann 10. janúar síðastliðinn. Að sögn stjórnarinnar var það gert vegna trúnaðarbrests. En stjórnin hafði áður ákveðið að auglýsa eftir nýjum framkvæmdastjóra og bjóða Hjálmari, sem er 67 ára að aldri, að starfa áfram innan félagsins um stund.
Hjálmar greindi frá því í fjölmiðlum að ástæða gremju sinnar væri að Sigríður Dögg hefði ekki svarað spurningum blaðamanna um skattamál sín. Það gengi ekki að formaður Blaðamannafélags Íslands gerði ekki sömu kröfur til sjálfs síns og viðmælenda sinna. Hefði hann síðan í fyrrasumar ítrekað borið þetta upp á fundum innan félagsins.
Sigríður Dögg hefur lagt fram kvörtun inn til stjórnarinnar vegna framkomu Hjálmars í sinn garð. „Hún var vegna óviðeigandi framkomu í minn garð hér á skrifstofunni af hálfu framkvæmdastjóra,“ segir hún aðspurð um þetta atriði.
Þetta var eftir að Sigríður Dögg hafði óskað eftir skoðunaraðgangi á reikninga félagsins. Í bókun stjórnarfundar segir að Hjálmar hafi brugðist illa við þessu, hrópað að henni og að þessari hegðun hefði verið lýst sem ógnandi.
Hjálmar hefur sagt að það hafi ekki komið til greina að veita skoðunaraðgang. Í reikningum væru til að mynda viðkvæmar persónulegar upplýsingar um hagi blaðamanna, svo sem hvaða blaðamenn hefðu fengið styrk vegna krabbameinsmeðferðar eða sálfræðiaðstoðar.
Ekki náðist í Hjálmar Jónsson fyrir vinnslu þessarar fréttar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.