Alexei lést í fangelsi síðastliðinn föstudag en hann var svarinn andstæðingur Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta og telja margir, þar á meðal ekkja Navalny, að Pútín hafi fyrirskipað að hann skyldi myrtur.
Bréfin sem New York Times birtir þykja gefa ákveðna innsýn í hugarheim Navalny síðustu mánuðina hans. Hann dvaldi í fangelsi við erfiðar aðstæður en virðist hafa verið við ágæta andlega heilsu ef marka má innihald bréfanna.
Á einum stað talaði hann um að hafa lesið 44 bækur á ensku á einu ári. Þá talaði hann um Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta og líklegan kandídat Repúblikana fyrir komandi kosningar. Sagði hann að annað kjörtímabil Trumps væri „ógnvekjandi“ og kvaðst hann óttast að hann myndi hafa betur vegna heilsuleysis Joe Bidens sem er kominn á níræðisaldur.
Navalny er svo sagður hafa skipst á bréfum við baráttukonuna Kerry Kennedy sem er dóttir Robert F. Kennedy. Robert var öldungadeildarþingmaður og væntanlegur forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins þegar hann var skotinn til bana árið 1968. Í bréfi sínu til hennar sagðist hann meðal annars hafa „grátið tvisvar eða þrisvar“ þegar hann las bók um föður hennar.
Þá þakkaði hann henni fyrir að senda henni plakat með tilvitnun í fleyg ummæli föður hennar um gildi þess að eiga von. „Ég vona að einn daginn geti ég hengt það upp á skrifstofunni minni,“ sagði hann.
Þá skrifaði hann í einu bréfinu um rússnesku fangaverðina sem gættu þess að hann færi hvergi. „Ef þeim er sagt að gefa þér kavíar þá gefa þeir þér kavíar. Og ef þeim er sagt að kyrkja þig í fangaklefanum þínum, þá kyrkja þeir þig,“ sagði hann.