Ný rannsókn vísindamanna við hagfræðideild Háskóla Íslands sýnir að eftir að framhaldsskólanám var stytt úr fjórum árum niður í þrjú hefur nemendum gengið verr að fóta sig í háskóla. Einkunnir hafa lækkað og brottfall aukist.
Rannsóknin var gerð af prófessorunum Gylfa Zoega og Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur og doktorsnemanum Gísla Gylfasyni. Var hún birt í Þjóðarspeglinum svokallaða.
Gylfi lýsir rannsókninni í myndbandi sem birt var á samfélagsmiðlum. En í henni voru bornar saman einkunnir nemenda sem höfðu gengið í gegnum þriggja og fjögurra ára framhaldsskóla, skólaárið 2018/2019 og haustið á eftir, leiðrétt eftir aldri, kyni, hvaða framhaldsskóla þeir komu úr og stúdentseinkunnum.
„Það sem kom í ljós er að meðaleinkunin var aðeins lægri og brottfallið meira hjá þeim sem koma inn eftir þriggja ára stúdentspróf,“ segir Gylfi í myndbandinu.
Breytingin var gerð í tíð menntamálaráðherrans Illuga Gunnarssonar. Gylfi er nokkuð harðorður í garð stjórnvalda fyrir að hafa lítt sinnt því að athuga hvaða áhrif þetta hefði haft á nemendur.
„Því miður er takmarkaður áhugi hjá stjórnvöldum, eða enginn áhugi, á að athuga afleiðingarnar. Því er þetta einkaframtak. Þetta er það besta sem við getum gert,“ segir hann. En það sé að mörgu að huga.
„Þetta hefur afleiðingar fyrir líðan fólks í framhaldsskóla, brottfall í framhaldsskóla, hvort það tekur sér frí eftir framhaldsskóla, hversu margir skila sér í næsta skólastig fyrir ofan. Þetta hefur áhrif á frammistöðu og brottfall í háskólanum. Það skiptir máli að sjá hvernig fólk fótar sig í lífinu,“ segir Gylfi. „Ef það eru gerðar kerfisbreytingar sem valda því að fólk á erfiðara með að fóta sig í lífinu þá er eins gott að komast að því sem fyrst til þess að laga kerfið.“
Það sé ekki endilega til þess að fara aftur í sama horf og fyrir breytinguna. Heldur til þess að það sé tekið öðruvísi á móti nemendum í háskólanum. Eða þau nemendur séu undirbúnir á annan hátt í grunnskólum.
„Kannski er tíundi bekkur í grunnskóla of léttur? Kannski ætti fyrsta ár í háskóla að vera almennara nám?“ spyr Gylfi. „Hérna eins og á svo mörgum öðrum sviðum í okkar samfélagi eru gerðar breytingar og svo er engin eftirfylgni. Þetta eru krakkar, manneskjur sem er verið að leika sér með.“