fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Lögreglan á Norðurlandi eystra í öngstræti og valkostirnir daprir – niðurlæging eða athlægi

Ritstjórn DV
Föstudaginn 16. febrúar 2024 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Engin hreyfing mun vera á rannsókn lögreglustjórans á Norðurlandi eystra á meintum brotum blaðamanna sem stóðu að baki fréttaflutningi um skæruliðadeild Samherja. Sakborningum hefur reynst erfitt að fá svör um hvar málið er statt og líklega sé lögreglan komin í öngstræti, með ekkert í höndunum en geti þó ekki fellt málið niður og haldið andliti á sama tíma. 

Þetta kemur fram í leiðara ritstjóra Heimildarinnar, Þórðar Snæs Júlíussonar, en Þórður er jafnframt sakborningur í málinu ásamt þeim Aðalsteini Kjartanssyni, Arnari Þór Ingólfssyni, Inga Frey Vilhjálmssyni og Þóru Arnórsdóttur.

Málglaður skipstjóri og afskiptir sakborningar

Fyrst var greint frá rannsókn lögreglu fyrir tveimur árum síðan, en samkvæmt Þórði hófst rannsóknin nokkuð fyrr svo í reynd sé lögreglan búin að hafa málið í sínum fórum í um þrjú ár. Á þessum tíma hafi aðeins verið tekin skýrsla af sakborningum einu sinni, en annað eigi við um meintan þolanda, Pál Steingrímsson, skipstjóra hjá Samherja. Hann hafi ítrekað gefið skýrslu og frásögn hans tekið sífelldum breytingum.

„Hann heldur því fram að fyrrverandi eiginkona hans hafi, í samráði við blaðamenn, lagt á ráðin um að byrla honum ólyfjan, stela síma hans og koma gögnum úr þeim í umfjöllun hjá fjölmiðlum,“ skrifar Þórður og tekur fram að í svörum frá lögreglu hafi sakborningar fengið að meint brot þeirra eigi að varða við ákvæði almennra hegningarlaga sem fjalla um stafrænt kynferðisofbeldi. Því sé haldið fram að blaðamenn hafi afritað farsíma Páls og þá meðal annars komist yfir persónuleg myndbönd sem sýndu hann í kynferðislegu samhengi. Þessum myndböndum hafi blaðamenn svo dreift.

Þórður segir að þessi meintu stafrænu kynferðisbrot hafi þó ekki verið borin upp á sakborninga við skýrslutöku „enda einu skiptin sem höfundur hefur séð kynlífsmyndir sem tengjast Páli Steingrímssyni þau þegar lögreglan á Norðurlandi eystra hefur sent sakborningum slíkar sem hluta af rannsóknargögnum.“

„Þrátt fyrir ítrekaðar umleitanir blaðamanna og lögmanna þeirra þá hefur lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, eða þeir starfsmenn hennar sem koma að rannsókninni, ekki fengist til að gera skýra grein fyrir því að hverju grunur um refsiverða háttsemi af hans hálfu beinist. Lögreglan vill ekki segja hvaða hátterni við eigum að hafa sýnt af okkur til að teljast glæpamenn. Það er leyndarmál.“

Allt sem Þórður hefur fengið aðgang að og hvernig málið hefur birst honum bendir aðeins til eins: „að þessi grunur tengist störfum okkar sem blaðamenn og lúti aðeins að fréttaskrifum í tilviki þriggja og móttöku tölvupósts í tilviki eins.“

Rörsýn lögreglu og fjarstæðukenndar samsæriskenningar

Eins sé ljóst að þrátt fyrir að lögreglu beri að lögum skylda til að vera hlutlaus við rannsókn sakamáls og gæta jafnt að því sem horfir til sýknu og sektar, þá sér lögreglan á Norðurlandi eystra með rörsýn í málinu og leiti logandi ljósum að einhverju til að geta sannað sekt.

Lögregla hafi ekki einu sinni fengið staðfest að fréttaflutningur um skæruliðadeildina byggi yfir höfuð á gögnum úr síma Páls, hvað þá að þeirra hafi verið aflað með ólögmætum hætti.

„Æsilegar samsæriskenningar um að RÚV haldi úti sérstökum tæknimanni til að sinna slíkum glæpaverkum fyrir aðra fjölmiðla og að umræddur sími hafi verið afritaður þar, með vitund og vilja síbreytilegs hóps starfsmanna og yfirmanna, eiga sér enga stoð í gögnum álsins. Enda fjarstæðukennd þvæla.“

Lögreglan hafi meira að segja reynt sjálf að afrita gögn með þeim hætti sem Páll segir að gert hafi verið. Það gátu þeir ekki. Engin séu einu sinni til gögn sem styðja þá kenningu að Páli hafi verið byrlað eða að eitrað hafi verið fyrir honum.

Lögreglan á Norðurlandi eystra kærði svo fyrrverandi eiginkonu Páls fyrir umsáturseinelti en dómari sem sýknaði í málinu með afgerandi hætti átaldi lögregluna sérstaklega fyrir slælega rannsókn og verjandi konunnar sagði málið einstaklega dapurt þar sem líklega hefði enginn annar lögreglustjóri á landinu gefið ákæru sem þessa út.

„Samandregið þá hefur lögreglunni, með rannsókn sinni, tekist að afsanna allt sem hún lagði upp með að sanna. Eftir stendur ekkert nema hugarburður eins manns og rannsókn lögregluembættis, sem var eggjað áfram af áhrifafólki í stjórnmálum, á forsendum þess hugarburðar sem leitt hefur embættið út í skurð. Þar situr það embætti nú og neitar að koma upp.“

Örvæntingafull lokatilraun

Aðeins sé einn eftirstandandi angi af rannsókninni. Gagnabeiðni sem send hefur verið til Google um aðgengi að tölvupóst fyrrverandi eiginkonu Páls. Þetta sé örvæntingarfull lokatilraun lögreglu til að réttlæta það að gefa út ákæru.

Þórður segir að lögreglu sé ákveðin vorkunn í málinu enda valkostirnir ansi daprir.

„Hún þarf annaðhvort að reyna að ákæra blaðamenn fyrir að skrifa fréttir vitandi að hún á enga möguleika á að fá neitt út úr því annað en niðurlægingu, eða fella niður rannsókn málsins og gera sig réttilega að athlægi. “

Því ákveði lögreglan heldur að gera ekkert. Á meðan fái Páll Steingrímsson ítrekað pláss í fjölmiðlum til að viðra samsæriskenningar sínar. Með dyggum stuðningi Páls Vilhjálmssonar bloggara sem Morgunblaðið sjái svo um að auglýsa sérstaklega í ritstjórnarefni sínu.

„Þetta er klassísk „Láttu þá neita því“-aðferð. Lygum er dreift og ef þeir sem lygarnar fjalla um neita þeim ekki opinberlega í hvert sinn sem farið er með þær þá er því haldið fram að þær séu sannar. Ef rangindi eru endurtekin nógu oft þá fást mögulega einhverjir til að trúa þeim. Tilgangurinn helgar meðalið.“

Ljóst sé að málið sé aðför að frjálsri fjölmiðlun og verði kolsvartur minnisvarði um valdníðslu lögreglu gagnvart blaðamönnum fyrir að vinna vinnu sína. Ekki sé þó skorið fyrir að nokkuð gott geti komið úr þessu öllu. Hér megi draga lærdóm til að hægt verði að tryggja að svona lagað eigi sér ekki stað aftur.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Verð á matvöru hækkar hratt – Hér hefur það þó hækkað mest

Verð á matvöru hækkar hratt – Hér hefur það þó hækkað mest
Fréttir
Í gær

Helgarferð innanlands eða erlendis? – „43.000 ódýrara fyrir okkur að fljúga til London“

Helgarferð innanlands eða erlendis? – „43.000 ódýrara fyrir okkur að fljúga til London“